Athugasemd Í RÍKISSJÓNVARPINU er byrjað að sýna fróðlegan þátt sem nefnist Hafið, bláa hafið, og er búið að sýna fyrsta þátt af átta.

Athugasemd

Í RÍKISSJÓNVARPINU er byrjað að sýna fróðlegan þátt sem nefnist Hafið, bláa hafið, og er búið að sýna fyrsta þátt af átta.

Í þætti sem þessum þar sem þulur gegnir miklu hlutaverki er röddin eins mikilvæg og þátturinn sjálfur og skiptir máli að röddin sé hlutlaus. Þulurinn í þessum þætti les með miklum tilfinningaþunga og virkar það eins og verið sé að lesa draugasögu og finnst mér það skemma fyrir þættinum.

Sjónvarpsáhorfandi.

Vantar ungt fólk á Alþingi

ÉG er eldri maður sem fylgist með fundarstörfum Alþingis.

Í DV 8. okt. sl. var frétt um að sumir þingmenn sjáist aldrei í þingsal eða ræðustól og voru sex þingmenn nafnkenndir. Er ég þessu sammála og man ég ekki eftir að hafa séð þetta fólk halda ræðu um eitt eða annað og finnst mér að þeir sem kosnir eru á þing ættu að stíga í ræðustól annað slagið.

Eins finnst mér vanta ungt fólk á Alþingi og ættu eldri þingmenn að víkja til hliðar fyrir yngra fólki því þarna vantar endurnýjun.

Óskar.

Erum við að tapa áttum?

Í GÆRKVELDI lá leið mín í Smáralindina í bíóhús og langar mig að segja frá þeirri ferð.

Þegar ég kem gangandi inn eftir Smáralindinni sé ég að kona ein tekur á rás og hleypur hvað hún getur lít ég þá til hliðar og sé hvað það er sem hún hleypur út af, og hleyp ég þá strax af stað, litli drengurinn hennar hafði klifrað upp eftir rúllustiganum utanverðum og var að missa takið, hann hefur verið um 4 ára gamall, hann missir takið og erum við báðar of seinar að ná til hans og dettur hann í gólfið með miklum skelli.

Ekki veit ég hvort hann hefur slasast við þetta en við fyrstu athugun hafði hann fengið kúlu á höfuðið og skældi mikið.

Móðirin var að sjálfsögðu í miklu uppnámi og fékk sjokk þar sem ekki mátti miklu muna að illa færi. Þarna dreif að mann með talstöð sem ég vænti að sé frá Smáralindinni og talaði við móðurina.

Það sem á mér brennur mest er að enginn skyldi gefa þessu gaum, það var fólk allt í kring þar sem þetta var við miðasöluna í bíóinu. Hvers vegna erum við orðin svona afskiptalus? Við gefum ekki náunganum gaum og látum hjá líða að taka í taumana.

Íslendingar, vöknum og berum meiri umhyggju fyrir náunganum og því sem er að gerast í kringum okkur.

Einnig tel ég að starfsfólk Smáralindar megi athuga þetta með rúllustigana þar sem litlir fætur eiga auðvelt með að komast meðfram stiganum og er þetta slysagildra.

Birna.

Tveir hundar í óskilum

TVEIR hundar eru í óskilum á Hundahótelinu Leirum; terrier tík grá/hvít/svört smávaxin og blendings-hvolpur svartur/brúnn. Eigendur eru vinsamlega beðnir að vitja þeirra strax.

Upplýsingar í síma 5668366 og 6984967.