ÞEGAR vetrarfrí skólanna eru og börnin í fríi eru alltaf einhver börn sem þurfa að vera í skólanum í lengri viðveru vegna þess að foreldrar þeirra geta einhverra hluta vegna ekki tekið sér frí frá vinnu, eða eiga ekki rétt á vetrarorlofi.

ÞEGAR vetrarfrí skólanna eru og börnin í fríi eru alltaf einhver börn sem þurfa að vera í skólanum í lengri viðveru vegna þess að foreldrar þeirra geta einhverra hluta vegna ekki tekið sér frí frá vinnu, eða eiga ekki rétt á vetrarorlofi. Finnst mér þetta ósanngjarnt vegna barnanna, þau þurfa jú að mæta í skólann þó ekki sé verið að kenna.

Er ekki tímabært að fólk íhugi fyrir hvern þessi vetrarfrí eru? Skólinn er vinna barnanna og eru þessi frí sett á samkvæmt lögum. Held ég að allir hafi gott af þessu fríi, bæði foreldrar og börn, og þarna gæti skapast tími fyrir góða samveru foreldra og barna.

Eða getur verið að það sé til fólk sem finnist það óþarfi að taka sér frí til að vera hjá börnum sínum í vetrarfríum?

Var ég að velta því fyrir mér hvort atvinnurekendur gætu ekki komið til móts við foreldra, annað hvort með því að gera þeim auðveldara að taka sér frí á þessum tíma eða skapað aðstæður fyrir börnin á vinnustað.

Veit ég að í Noregi koma vinnuveitendur til móts við foreldra og fá foreldrar frí til að vera heima hjá börnunum í vetrarfríi.

Skólaliði.