Víkverji átti leið heim frá Bandaríkjunum í vikunni, flugleiðis með Flugleiðum, sem vart telst til stórtíðinda hjá þessari vorri ferðaglöðu þjóð. Að venju ferðaðist Víkverji á almennu farrými, svonefndum "Business Class", og fór ljómandi vel um hann. Á flugvellinum vestra hafði Víkverji hinsvegar hitt kunningja sinn, sem sömuleiðis var á heimleið með sömu vél, þannig að Víkverji og kunninginn hugsuðu sér gott til glóðarinnar að eiga gott spjall á heimleið. Við könnun á því hvar kunninginn sæti, um miðbik fararinnar eða svo, kom á daginn að úr vöndu var að ráða, því kunninginn var á Saga-farrými. Við nánari skoðun kom þó á daginn að sessunautur kunningjans hafði brugðið sér frá, þannig að Víkverji sá sér leik á borði að smeygja sér í Saga-sætið í fjarveru hans, þegar kunninginn gaf honum vink þar um. En hann komst ekki upp með neina slíka ósvífni, því sætalögregla Flugleiða, í gervi afar strangrar flugfreyju, var umsvifalaust mætt á svæðið og sagði ströngum rómi: "Veistu, þetta er stranglega bannað! Má ég biðja þig að fara þegar í stað í sæti þitt aftur í vél?" Víkverji hundskaðist auðvitað þegar í stað aftur í með djúpt andlegt skófar á afturendanum og tók sér sæti í almenningnum og dauðskammaðist sín fyrir framhleypnina, að hafa ætlað að eiga orðastað við kunningja sinn, og hugsaði sem svo að það hlyti að teljast algjört aukaatriði að kunninginn hafði boðið honum sæti. Hvað átti hann með það? Hann var að brjóta sætareglur Flugleiða með boðinu.
Og talandi um flug. Sjónvarpsþættirnir um Sögu flugsins á Íslandi hafa vakið áhuga Víkverja. Þeir eru með afbrigðum vandaðir og augljóst á öllu að heilmikil vinna hefur verið lögð í þá, jafnt öflun heimilda sem úrvinnslu þeirra. Tæknilega eru þættirnir og með því besta sem sést hefur í íslenskri heimildarmyndagerð. Einn vankantur hefur þó verið á þáttunum, sjálf frásögnin, en hún hefur verið fulllaus í reipunum og vaðið um of úr einu í annað. Þessi hætta er fyrir hendi þegar reynt er að segja langa og umfangsmikla sögu í réttri tímaröð. Hefði Víkverja því í þessu tilfelli þótt gagnlegra að sjá frásögnina efnisskipta, að hvert viðfangsefni fyrir sig, farmflugið, farþegaflugið, innanlandsflugið, sjúkraflugið, flugumferðarstjórn o.fl. hefði verið afgreitt alfarið áður en farið yrði yfir í annað.