* EIÐUR Smári Guðjohnsen, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur leikinn líklega á bekknum þegar Chelsea og Tottenham eigast við í Lundúnaslag á White Hart Lane á morgun. Talið er nokkuð víst að Claudio Ranieri , stjóri Chelsea , tefli fram Gianfranco Zola og Jimmy Floyd Hasselbaink í fremstu víglínu.
* LÁRUS Orri Sigurðsson kemur mjög líklega inn í byrjunarlið WBA á nýjan leik í stað Sean Gregans sem á við meiðsli að stríða. WBA tekur á móti Manchester City .
* HERMANN Hreiðarsson verður á sínum stað í vörn Ipswich sem fær Crystal Palace í heimsókn á Portman Road á morgun.
* ÍSLENDINGASLAGUR er á dagskrá í ensku 1. deildinni í dag þegar Watford og Wolves eigast við. Heiðar Helguson á víst sæti í byrjunarliði Watford enda búinn að skora grimmt í undanförnum leikjum en Ívar Ingimarsson verður á varamannabekk Wolves .
* STOKE leikur í dag sinn fyrsta leik undir stjórn Tony Pulis þegar liðið sækir Walsall heim. Brynjar Björn Gunnarsson verður líklega eini Íslendingurinn í byrjunarliði Stoke. Búist er við að Bjarni Guðjónsson verði á bekknum en Pétur Marteinsson sem fyrr ekki í hópnum. Stoke hefur leikið sjö leiki í röð án sigurs.
* WEST Ham verður án Paolo Di Canio og Frederics Kanoute þegar liðið mætir Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liverpool er eina liðið sem enn hefur ekki tapað leik í deildinni en West Ham hefur unnið síðustu þrjá útileiki sína. Óvíst er hvort Steven Gerrard geti leikið með Liverpool vegna meiðsla.
* RUUD van Nistelrooy verður að öllum líkindum í fremstu víglínu Manchester United sem tekur á móti Southampton . Nistelrooy hefur verið frá undanfarnar tvær vikur vegna meiðsla en er allur að braggast. Þá kemur Ryan Giggs inn í lið United að nýju en hann hefur ekki leikið tvo síðustu leiki liðsins.
* ARSENAL vonast til að komast á sigurbraut á nýjan leik en ensku meistararnir hafa tapað fjórum leikjum í röð, þar á meðal tveimur í úrvalsdeildinni. Arsenal sækir Fulham heim á morgun og þykir líklegt að Dennis Bergkamp komi inn í byrjunarlið Arsenal en hann hefur jafnað sig á meiðslum í hásin. Fyrirliðinn Patrick Vieira verður hins vegar ekki með - tekur út síðari leik sinn í banni.
* ÞEGAR Arsenal tapaði fyrir Dortmund í vikunni, var það fjórði tapleikur liðsins í röð. Það þarf að leita 19 ár aftur í tímann til að finna ár, sem Arsenal tapaði fjórum kappleikjum í röð. Það var áður en Tony Adams, fyrrverandi fyrirliði liðsins, byrjaði að leika með Arsenal. Hann lagði skóna á hilluna sl. sumar. Þetta eitt sýnir hvað mikill leiðtogi hann var - hann þoldi ekki að tapa og hvað þá fjórum leikjum í röð.
*RAY Lewington, k nattspyrnustjóri Watford, var í gær útnefndur stjóri októbermánaðar í ensku 1. deildinni í knattspyrnu. Watford vann fjóra leiki af fimm í mánuðinum og það var ekki síst Heiðari Helgusyni að þakka sem var iðinn við að skora sigurmörk fyrir sína menn.
* FRAKKINN Guy Stephan , fyrrum aðstoðarþjálfari franska landsliðsins sem þjálfað hefur bæði Lyon og Bordeaux , var í dag ráðinn landsliðsþjálfari Senegal í knattspyrnu. Senegalar hafa verið án þjálfara frá því HM lauk í júlí en þá var Frakkanum Bruno Metsu vikið úr starfi þar sem Afríkumennirnir gátu ekki sætt sig við að Metsu tók að sér þjálfun félagsliðs í Sádi Arabíu .