GUÐRÚN Ögmundsdóttir hefur frá upphafi þingsetu sinnar 1999 dregið fram í dagsljósið mál sem fram til þess tíma voru álitin feimnismál sem e.t.v. mætti minnast á í framhjáhlaupi, mál sem höfð voru í flimtingum en ekki fjallað um af alvöru. Oftar en ekki var talið að við Íslendingar þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þeim, þetta væri eitthvað sem gerðist annars staðar í heiminum. Þetta eru málefni innflytjenda, kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi, fanga, samkynhneigðra. Hún hefur dregið fram í dagsljósið til umfjöllunar mál eins og vændi og mansal. Þetta hefur hún gert af þekkingu, varfærni og hreinskilni. Fólkið sem tilheyrir þessum "málaflokkum" á sér fáa málsvara. Guðrún hefur alla tíð haft áhuga á þessu fólki. Hún hefur viljað rétta hlut þess. Vinna með því, eiga það að vinum, hafa það allt í kringum sig. Hún sat í félagsmálaráði Reykjavíkur frá 1992, var formaður þess frá 1994 til 1998. Þar vann hún heilshugar að bættri stöðu notenda. Allar þær breytingar miðuðu að því að fólk gæti leitað sér aðstoðar án þess að þurfa að skammast sín fyrir.
Þegar fólk úr ýmsum flokkum er spurt um þingmanninn Guðrúnu Ögmundsdóttur segir það: "Hún talar mannamál."
Þessi kona þarf að vera á Alþingi Íslendinga.
Sigrún Óskarsdóttir, forstöðumaður hjá Félagsþjónustu Reykjavíkur, skrifar: