TILKYNNT hafa verið úrslit í fyrri hluta Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema 2002-2003, sem fram fór þriðjudaginn 15. október. Var um tuttugu efstu nemendum í hvorum aldursflokki boðið af því tilefni upp á kaffi og kökur í Skólabæ.
Lárus H. Bjarnason, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, tilkynnti úrslitin og Hrafnkell Kárason, starfsmaður hjá Kaupþingi, var með nokkur hvatningarorð til nemenda en Kaupþing hefur staðið undir kostnaði við keppnina undanfarið ásamt Íslenskri erfðagreiningu.
Á efra stigi var efstur Eyvindur Ari Pálsson, Menntaskólanum í Reykjavík, í 2. sæti var Þorbjörn Guðmundsson, einnig úr Menntaskólanum í Reykjavík og í 3. sæti Grétar Amazeen, Menntaskólanum í Reykjavík. Á neðra stigi varð efstur Höskuldur P. Halldórsson, Menntaskólanum í Reykjavík, í 2. sæti Örn Stefánsson og í 3. sæti María Helga Guðmundsdóttir, bæði úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þremur efstu nemendum af hvoru stigi voru afhent bókaverðlaun. Þá var á grundvelli úrslitanna valið fimm manna lið til að keppa í Eystrasaltskeppninni í stærðfræði sem fram fer í Tartu, Eistlandi, dagana 31. október til 4. nóvember.
Liðið skipa Eyvindur Ari Pálsson, Þorbjörn Guðmundsson, Grétar Amazeen, Ásgeir Alexandersson og Höskuldur P. Halldórsson.