Valgerður Sverrisdóttir  mælti fyrir frumvarpi um fjármálafyrirtæki.
Valgerður Sverrisdóttir mælti fyrir frumvarpi um fjármálafyrirtæki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VALGERÐUR Sverrisdóttir viðskiptaráðherra mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um fjármálafyrirtæki. Verði frumvarpið að lögum koma þau í stað nokkurra eldri laga á þessu sviði. Samkvæmt frumvarpinu mun Fjármálaeftirlitið m.a.

VALGERÐUR Sverrisdóttir viðskiptaráðherra mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um fjármálafyrirtæki. Verði frumvarpið að lögum koma þau í stað nokkurra eldri laga á þessu sviði. Samkvæmt frumvarpinu mun Fjármálaeftirlitið m.a. veita og afturkalla starfsleyfi fjármálastofnana í stað viðskiptaráðherra nú. Þá hefur í frumvarpinu ákvæðum um sparisjóði verið breytt, frá því sem nú er, í því skyni að treysta yfirtökuvarnir þeirra. Aukinheldur eru í frumvarpinu ákvæði um að sparisjóður skuli breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag áður en samruni við aðrar tegundir fjármálafyrirtækja geti átt sér stað.

Valgerður Sverrisdóttir ítrekaði, í umræðum um frumvarpið á Alþingi í gær, að þau ákvæði sem sneru að sparisjóðum væru fyrst og fremst til þess fallin að eyða réttaróvissu og "til að koma hlutunum þannig fyrir í lagalegu formi að það ríki ekki þessi óvissa," sagði ráðherra. "Og hlutir eins og gerðust í sumar gerist ekki," bætti hún við. "Það er gengið eins langt í þessum efnum og ég tel að við getum gert með tilliti til stjórnarrskrár Íslands."

Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði um frumvarpið almennt að við fyrstu sýn virtist það "taka á fjölmörgum atriðum með skynsamlegum hætti," eins og hann orðaði það.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagðist hafa skilið viðskiptaráðherra á þann veg í sumar að "það ætti að koma í veg fyrir brask með stofnfjárhluti." Ögmundur sagði hins vegar að hann gæti ekki séð að það væri gert með umræddu frumvarpi.

Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, gerði ákvæði um Fjármálaeftirlitið m.a. að umtalsefni og sagði að samkvæmt þeim væri verið að stofna einhvers konar yfirráð eða æðsta ráð í þessum efnum.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og einn fimm stofnfjáreigenda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, sem gerðu öðrum stofnfjáreigendum yfirtökutilboð í sumar, sagði í andsvari sínu við ræðu viðskiptaráðherra í gær að löggjafinn ætti ekki að leysa úr ágreiningi sem risi vegna gildandi laga, heldur dómstólar.

"Við erum með þrískiptingu valdsins; framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald. Ágreining sem rís vegna gildandi laga á að leysa fyrir dómstólum. Hann á ekki að leysa með tilskipunum. Hann á ekki að leysa á löggjafarsamkundunni, sem er ekki dómsvald," sagði Pétur.

"Hér er gerð tilraun til þess að leysa ágreining með lögum. Það er verið að setja lög sem eiga að treysta yfirtökuvarnir sparisjóðanna. Og það er talað um fjandsamlega yfirtöku. en fjandsamlega hverjum?" spurði Pétur og hélt áfram: "Stofnfjáreigendum? Nei. Sparisjóðnum? Nei, því hans eigið fé er tryggt. Stjórninni? Kannski." Síðan sagði Pétur: "Þetta minnir á tilskipanir einræðisherra og ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann ætli virkilega að fara að stjórna í krafti tilskipana?"

Valgerður Sverrisdóttur svaraði því til að á Alþingi dygðu engar aðferðir einræðisherra. "Eins og þingmaðurinn veit jafn vel og ég þá duga engar aðferðir einræðisherra hér á háttvirtu Alþingi. Það þarf vilja Alþingis til þess að þetta frumvarp verði samþykkt." Ráðherra tók hins vegar fram að hún gerði ekki ráð fyrir því að Pétur H. Blöndal styddi frumvarpið.

Síðan sagði ráðherra: "Háttvirtur þingmaður misskilur þetta mál, og þetta eru fullyrðingar sem ég er búin að heyra frá fleirum, að það eigi með löggjöf að taka á því ástandi sem skapaðist í sumar og breyta lögum eftirá. Að sjálfsögðu breytum við ekki lögum aftur í tímann. Það er ekki hægt. Og bæði þau tilboð sem komu fram í sumar, þau hafa verið úrskurðuð af Fjármálaeftirlitinu sem ólögleg eða ónothæf. Þannig að það er ekki um það að ræða að það sé tilboð í gangi um þessar mundir frá fimmenningum sem háttvirtur þingmaður kannast við."

Pétur H. Blöndal tók aftur til máls og sagði það rangt að hann væri á móti umræddu frumvarpi í heild sinni. "Ég er mjög sáttur við frumvarpið, nema að því er varðar sparisjóðina." Síðan sagði þingmaðurinn: "Það að Fjármálaeftirlitið hafi úrskurðað þessi tilboð ólögleg eins og hæstvirtur ráðherra sagði, það er ekki rétt." Pétur H. Blöndal sagði að tilboð fimmmenninganna og Búnaðarbanka Íslands hefði verið löglegt.

Ráðherra ítrekaði hins vegar að tilboð þeirra hefði verið ólöglegt, þ.e. það hefði ekki gengið upp óbreytt. Þar með hefði þurft að leggja fram nýtt tilboð en slíkt tilboð hefði enn ekki komið fram.