[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚTGERÐARFÉLAG Akureyringa hf. gekk í gær frá kaupum á öllum hlutabréfum í breska útgerðarfyrirtækinu Boyd Line Management Services Ltd. Kaupverðið er 7 milljónir punda eða um 950 milljónir króna.

ÚTGERÐARFÉLAG Akureyringa hf. gekk í gær frá kaupum á öllum hlutabréfum í breska útgerðarfyrirtækinu Boyd Line Management Services Ltd. Kaupverðið er 7 milljónir punda eða um 950 milljónir króna.

Boyd Line er ein af þremur stærstu úthafsútgerðum Bretlands. Félagið hefur yfir að ráða um 40% af þorskkvóta Bretlands í Barentshafi, sem er úthlutað af Evrópusambandinu. Onward Fishing Company Ltd., dótturfélag Samherja hf. í Skotlandi, er með um 20% kvótans og því hafa Íslendingar yfir að ráða um 60% þorskkvóta Bretlands í Barentshafi. ESB úthlutaði Bretum um 9.300 tonna þorskkvóta í Barentshafi á þessu ári og því hafa íslensku fyrirtækin tvö yfir um 5.600 tonnum af breska kvótanum að ráða.

Heildarþorskkvóti í Barentshafi á þessu ári er 395 þúsund tonn sem er sami kvóti og á síðasta ári. Þessar aflaheimildir eru langt umfram það sem ráðgjafarnefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins lagði til, en samkvæmt ráðleggingum hennar var talið óvarlegt að veiða meira en 180.000 tonn.

Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur lagt til að heildarþorskkvótinn á árinu 2003 verði 305 þúsund tonn.

Verði farið að tillögunum fá Íslendingar ekki kvóta í Barentshafi á næsta ári því hann miðast við að heildarkvótinn á þessu svæði sé yfir 350 þúsund tonn. Kvóti Íslendinga í Barentshafi á yfirstandandi ári er tæplega 6 þúsund, samkvæmt samkomulagi Íslendinga við Rússa og Norðmenn, þar af 3.660 tonn innan norskrar lögsögu og 2.280 tonn innan þeirrar rússnesku. Auk þess má meðafli af öðrum tegundum vera 30%.

Íslendingar veiddu samtals rúm 5.900 tonn af þorski í Barentshafi á síðasta ári og nam verðmæti aflans ríflega einum milljarði króna.

Samherji seldi fyrir skömmu frystiskipið Akureyrina EA til Onward Fishing en skoska félagið skilaði þá frystiskipinu Norma Mary, sem áður hét Snæfugl, en félagið hafði verið með skipið í leigu frá Síldarvinnslunni hf. á Neskaupstað og veiddi það m.a. af kvóta félagsins í Barentshafi.

Boyd Line er skráð í Hull í Englandi. Veiðiheimildir félagsins á yfirstandandi ári eru 3.905 tonn af þorski, 507 tonn af ýsu auk nokkurra tuga tonna í öðrum tegundum.

Gerir út tvö frystiskip

Boyd Line er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1936. Það var nokkuð umsvifamikið á 7. og 8. áratugnum, gerði mest út 22 togara en verulega hefur dregið úr starfseminni með minnkandi aflaheimildum.

Nú starfa hjá fyrirtækinu 10 starfsmenn í landi og um 60 sjómenn. Áætluð ársvelta félagsins á þessu ári eru 7 milljónir punda eða um 950 milljónir króna.

Boyd Line gerir út tvö sjófrystiskip; Arctic Warrior, sem var smíðað árið 1988, er skráð í Bretlandi og nýtir kvóta félagsins í Barentshafi. Einnig Arctic Corsair, sem var smíðað árið 1974, er skráð í Rússlandi og nýtir rússneskar veiðiheimildir í samvinnu við þarlenda aðila. Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri ÚA, segir að Arctic Warrior nýti kvóta beggja skipanna og því hafi eldra skipinu verið flaggað út. Hann segir að enn hafi ekki verið ákveðið hvort ÚA muni taka yfir rekstur skipsins í Rússlandi. Það verði skoðað á næstu mánuðum.