KAUPÞING banki hf. skilaði 2,2 milljarða króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins, en á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn 83 milljónir króna.

KAUPÞING banki hf. skilaði 2,2 milljarða króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins, en á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn 83 milljónir króna. Á þriðja fjórðungi ársins var hagnaðurinn 1,5 milljarðar króna, en á sama tímabili í fyrra var 238 milljóna króna tap af rekstrinum.

Í fyrra var 86 milljóna króna tap fyrir skatta, en í ár var 2,6 milljarða króna hagnaður fyrir skatta. Þar af nam söluhagnaður af Frjálsa fjárfestingarbankanum 1,5 milljörðum króna. Að þessum söluhagnaði meðtöldum var arðsemi eigin fjár 33,0%, en án söluhagnaðarins var arðsemin 14,1%. Gert er ráð fyrir 15% arðsemi fyrir árið í heild.

Hreinar rekstrartekjur jukust um 117% og námu 7,1 milljarði króna, en önnur rekstrargjöld hækkuðu um 46% og námu 4,1 milljarði króna. Kostnaðarhlutfall, þ.e. gjöld sem hlutfall af tekjum, lækkar milli ára úr 96% í 58%.

Afkoma sviða ólík

Afkoman var ólík eftir afkomusviðum. Fjárstýring skilaði 757 milljóna króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins, fyrirtækjaþjónusta 625 milljóna króna hagnaði og markaðsviðskipti 17 milljóna króna hagnaði. Eignastýring og einkabankaþjónusta voru hins vegar reknar með 241 milljónar króna tapi.

Útlán jukust um 14,1 milljarð króna

Framlag í afskriftareikning tvöfaldaðist á milli ára og nam 453 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Á afskriftareikningi var tæpur 1 milljarður króna í lok september, eða sem nemur 2,2% af útlánum og veittum ábyrgðum.

Útlán námu í lok september 42,5 milljörðum króna og jukust um 6,4 milljarða króna frá áramótum. Innlán jukust um 14,1 milljarð króna frá áramótum og námu 24,7 milljörðum króna í lok september.

Heildareignir Kaupþings námu 141 milljarði króna í lok september og höfðu þá aukist um 19% frá áramótum. Eigið fé nam tæpum 11 milljörðum króna, sem er 18,3% aukning frá áramótum. Eiginfjárhlutfall Kaupþings á CAD-grunni var 11,9% og þar af var eiginfjárþáttur A 10,9%. Um áramót var eiginfjárhlutfallið 11,6%.