Sigríður Rut Júlíusdóttir og Ragnar Aðalsteinsson.
Sigríður Rut Júlíusdóttir og Ragnar Aðalsteinsson.
FJÖRUTÍU ár skilja að lögmennina Sigríði Rut Júlíusdóttur og Ragnar Aðalsteinsson, en þrátt fyrir aldursmuninn hafa þau stofnað lögmannsstofu saman, þar sem ætlunin er að takast bæði á við hefðbundin og óhefðbundin verkefni.

FJÖRUTÍU ár skilja að lögmennina Sigríði Rut Júlíusdóttur og Ragnar Aðalsteinsson, en þrátt fyrir aldursmuninn hafa þau stofnað lögmannsstofu saman, þar sem ætlunin er að takast bæði á við hefðbundin og óhefðbundin verkefni.

"Þegar ég útskrifaðist fékk ég vinnu á lögmannsstofu Sigurðar G. Guðjónssonar sem nú er forstjóri Norðurljósa. Aðstandendur keppninnar Ungfrú Ísland.is leituðu til stofunnar vegna lögbanns á myndina Í skóm drekans og þeir vildu líka hafa Ragnar Aðalsteinsson í málinu. Þannig hófst samstarf okkar Ragnars, og í þessu samstarfi kynntumst við vinnubrögðum hvort annars og ákváðum síðan á haustmánuðum að hefja saman þennan rekstur," segir Sigríður Rut um aðdragandann að því að þau Ragnar hófu sameiginlegan rekstur lögmannsstofu.

Spurð um það á hvaða sviðum þau muni starfa segir Sigríður Rut að þau muni veita alhliða lögmannsþjónustu og starfa áfram að svipuðum verkefnum og þau hafi gert hingað til. "Ragnar hefur til dæmis verið mikið í mannréttindamálum, fjarskiptarétti og höfundarétti. Ég hef verið að vinna við fasteignakauparétt, samkeppnisrétt, eignarétt og samningarétt, en einnig að mannréttindamálum.

Það sem einna helst skilur okkur frá öðrum lögmannsstofum er að við erum óhrædd við að taka að okkur sérstök og óvenjuleg mál og höfum bæði gert það. Ég tók að mér mál fyrir nokkrum árum sem varðaði sóknaraðild föður í barnsfaðernismáli og vann það mál, en fram að þeim tíma höfðu feður ekki átt sóknaraðild í slíkum málum. Áherslan hjá okkur verður meðal annars að taka að okkur svona mál þar sem farið er ótroðnar slóðir og Ragnar er einmitt þekktur fyrir að taka að sér slík mál."

Í gær birti nýja stofan auglýsingu í Morgunblaðinu. Sigríður Rut segir að með henni hafi bæði verið ætlunin að kynna samstarf þeirra Ragnars og jafnframt að leggja áherslu á að stofan sé ekki hefðbundin í þeim skilningi sem hafi viljað loða við aðrar lögmannsstofur fram til þessa, þar sem allir sitji stífir við pólerað fundaborð.