Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenzkra útvegsmanna, nefndi athyglisverðar tölur um hagræðingu í útgerð í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna í fyrradag.

Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenzkra útvegsmanna, nefndi athyglisverðar tölur um hagræðingu í útgerð í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna í fyrradag. Hann benti á, að fyrir tæpum tveimur áratugum hefðu 106 togarar verið gerðir út en nú væru þeir 70 og hluti þeirra veiddi úthafsrækju. Uppsjávarveiðiskip væru nú 38 en hefðu verið 52. Á árinu 1984 hefðu verið gerðir út 518 bátar stærri en 20 rúmlestir en þeir væru nú 233.

Engin spurning er um að þessar tölur sýna að mikil hagræðing hefur orðið í útgerð á tveimur áratugum. Þessi mikla hagræðing er ein af meginástæðum þess, að sjávarútvegurinn stendur nú með svo miklum blóma, sem raun ber vitni og er það sérstakt fagnaðarefni.

Af þessum sökum m.a. á sjávarútvegurinn mun auðveldara með að greiða gjald fyrir réttinn til að nýta fiskimiðin, þ.e. auðlindagjald, en Alþingi hefur sett lög um slíkt gjald, sem greiðslur hefjast á innan tveggja ára.

Í ræðu Kristjáns Ragnarssonar gætti hins vegar grundvallar misskilnings um einn þátt þess máls. Hann sagði m.a.: "Í tillögum svonefndrar auðlindanefndar var gert ráð fyrir að leggja gjald á allar auðlindir, auk fiskimiðanna, eins og orku, ljósvakarásir og aðgang að sérstæðum náttúrusvæðum. Þessu var öllu gleymt og sjávarútvegurinn situr einn uppi með þessa miklu gjaldtöku."

Þetta er áreiðanlega of mikil svartsýni hjá formanni LÍÚ. Auðvitað er það grundvallaratriði að eitt skuli yfir alla ganga í þessum efnum. Það hefur ekki farið mikið fyrir umræðum um auðlindagjald af öðrum auðlindum í almannaeigu. Í því sambandi má ekki gleyma að ekki er langt um liðið frá því, að niðurstaða fékkst á Alþingi um þau málefni, sem snúa að sjávarútveginum.

Hins vegar ættu ummæli Kristjáns Ragnarssonar nú að verða til þess að þráðurinn verði tekinn upp á ný og að umræður hefjist um gjaldtöku vegna nýtingar annarra auðlinda. Það var að sjálfsögðu meginatriði í þeirri ákvörðun sjávarútvegsins að fallast á gjaldtöku að hið sama ætti við um aðrar atvinnugreinar sem á einn eða annan veg nýta auðlindir í þjóðareigu. Það er eðlileg krafa þeirra, sem starfa í útgerð.

Það er tímabært að ríkisstjórn og Alþingi taki aðra þætti þessa máls til meðferðar.