SAXHÓLL ehf. keypti í gær 50 milljónir að nafnverði hlutafjár í Fjárfestingarfélaginu Straumi hf. á verðinu kr. 3,15. Eignarhlutur Saxhóls ehf. eftir viðskiptin nemur rúmum 144 milljónum króna. Einar Örn Jónsson framkvæmdastjóri Saxhóls ehf.

SAXHÓLL ehf. keypti í gær 50 milljónir að nafnverði hlutafjár í Fjárfestingarfélaginu Straumi hf. á verðinu kr. 3,15. Eignarhlutur Saxhóls ehf. eftir viðskiptin nemur rúmum 144 milljónum króna. Einar Örn Jónsson framkvæmdastjóri Saxhóls ehf. er varamaður í stjórn Fjárfestingarfélagsins Straums.

Stjórn Straums hefur boðað til hluthafafundar 11. nóvember en á fundinum á að ræða skráningu á aðallista Kauphallar Íslands og fjölgun stjrónarmanna úr þremur í fimm.

Straumur skilaði um 582 milljóna króna hagnaði eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins. Hagnaður Straums fyrir skatta var um 866 milljónir króna á tímabilinu en á sama tímabili í fyrra var 556 milljóna króna tap á rekstri félagsins. Innleystur hagnaður fyrir skatta var 1.031 milljón króna á tímabilinu en óinnleyst tap nam 346 milljónum króna. Heildarhagnaður félagsins nam því 582 milljónum króna sem gerir 12,6% arðsemi eigin fjár fyrir skatt.

Heildareignir Straums voru í lok tímabilsins 8.731 milljón króna en voru 11.745 milljónir króna í árslok 2001. Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins 8.372 milljónir króna og hafði aukist um 1.031 milljón króna frá sama tímabili í fyrra. Skuldir félagsins voru samtals 358 milljónir króna og skuldir og eigið fé því samtals 8.731 milljón króna. Í lok ársins 2001 voru skuldir og eigið fé 11.745 milljónir króna.

Eignir í skráðum innlendum hlutabréfum námu 5.921 milljón króna, í innlendum skuldabréfum 279 milljónum króna og í erlendum hlutabréfum 734 milljónum króna.