Lesendur Morgunblaðsins munu taka eftir nokkrum breytingum á blaðinu í dag, á 89. afmælisdegi þess. Veigamesta breytingin er á forsíðu blaðsins, sem héðan í frá verður blönduð fréttasíða með bæði innlendum og erlendum fréttum. Þar með er rofin sú hefð að forsíðan sé undantekningarlítið lögð undir erlendar fréttir. Sú hefð er e.t.v. ekki eins gömul og margur heldur. Eins og rakið er í grein Freysteins Jóhannssonar í blaðinu í dag hefur meginreglan verið sú frá um 1970 að erlendar fréttir séu á forsíðunni en innlendar á baksíðunni. Fréttir af stærstu viðburðum innanlands hafa þó verið birtar á forsíðunni.
Rökin fyrir því að hafa erlendar fréttir á forsíðu blaðsins hafa m.a. verið þau að með því væri stærsta dagblað landsins að opna einangraðri eyþjóð glugga út í heim. Þau rök eiga ekki lengur við. Tæknibyltingin hefur gert að verkum að innlendir ljósvakamiðlar flytja hvern dag nýjar fréttir frá útlöndum og senda út beint frá stórviðburðum. Fjöldi fólks hefur aðgang að erlendum gervihnattastöðvum, sem senda út fréttir allan sólarhringinn. Þá hefur Netið gert það að verkum að almenningur getur hvern dag lesið fréttir af atburðum erlendis jafnóðum og þær gerast, á vef Morgunblaðsins og annarra íslenzkra fjölmiðla jafnt og á vefjum erlendra fjölmiðla. Jafnframt hefur íslenzkt þjóðfélag tekið þeim stakkaskiptum að þar er frá fleiru að segja og iðulega hafa þær fréttir alþjóðlega skírskotun, t.d. fréttir úr atvinnulífi, menningarlífi og stjórnmálum. Skilin á milli erlendra frétta og innlendra hafa þar með orðið óljósari.
Framvegis verða því á forsíðu Morgunblaðsins helztu fréttir dagsins, hvort sem þær eru erlendar eða innlendar. Með þessu er Morgunblaðið ekki að draga úr áherzlu sinni á erlendar fréttir. Blaðið mun áfram verða í fararbroddi íslenzkra fjölmiðla hvað varðar erlendar fréttir og verður þeim gefið meira vægi inni í blaðinu, meðal annars með því að flytja þær framar í blaðið.
Baksíða blaðsins verður áfram innlend fréttasíða. Með því að stærstu fréttirnar birtast á forsíðu, verður til meira svigrúm á baksíðunni fyrir fjölbreyttari fréttir, sem endurspegla betur lífið í landinu og fjölbreytt áhugamál lesenda blaðsins.
Á blaðsíðu tvö verður gerð sú breyting að þar birtist daglega stutt fréttayfirlit þar sem vísað verður á aðrar fréttasíður, í því skyni að auðvelda lesendum að glöggva sig á skömmum tíma á helztu fréttum blaðsins. Tilvísanir á forsíðu, undir blaðhausnum, þjóna jafnframt þeim tilgangi að vekja athygli á innblaðsefni og gera það aðgengilegra fyrir lesendur.
Samfara þessum nýmælum verða nokkrar breytingar á útliti útsíðna blaðsins, en þó ekki meiri en svo að hefðbundið svipmót Morgunblaðsins, sem lesendur eiga að venjast, helzt í öllum aðalatriðum.
Morgunblaðið leitast við að vera fjölmiðill, sem svarar kalli tímans en byggir þó á gömlum merg hefðar og venju og mótast þessar breytingar af hvoru tveggja. Starfsfólk blaðsins vonast til að lesendur taki vel þeim breytingum, sem nú eru gerðar.