BÆJARSTJÓRARNIR í Reykjanesbæ og Grindavík harma þá stöðu sem komin er upp á Suðurnesjum að íbúarnir njóti ekki lengur þjónustu heimilislækna á heilsugæslustöðvunum á svæðinu og taka undir að það geti skapað öryggisleysi.

BÆJARSTJÓRARNIR í Reykjanesbæ og Grindavík harma þá stöðu sem komin er upp á Suðurnesjum að íbúarnir njóti ekki lengur þjónustu heimilislækna á heilsugæslustöðvunum á svæðinu og taka undir að það geti skapað öryggisleysi.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, kveðst hafa áhyggjur af stöðunni. Hann hefur áður lýst samúð með kröfum heilsugæslulækna um réttindi til jafns við aðra sérfræðinga til að starfa sjálfstætt eða inni á stofnunum. Nú þykir honum miður að læknarnir skyldu ekki vilja skoða þann möguleika sem heilbrigðisráðuneytið bauð upp á að hefja viðræður um gerð þjónustusamnings. "Í því hefði lausnarorðið hugsanlega fundist, hægt hefði verið að leggja grunn að jafnri stöðu heilsugæslulækna og annarra sérfræðinga," segir Árni.

Hann segir að bæjarstjórn Reykjanesbæjar sé ekki beinn aðili að þessari deilu og geti ekki gripið inn í hana. Deilurnar snúist um samninga sem heilbrigðisráðuneytið geri við lækna. Hann segir að nú sé spurningin hvort ráðuneytið treysti sér til að nálgast frekar kröfur lækna um jöfnun réttinda.

Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík, er óánægður með að ekki skuli hafa fundist lausn á deilu ráðuneytis og lækna áður en þeir hættu störfum. "Það er óviðunandi fyrir Grindvíkinga að vera læknislausir í styttri eða lengri tíma," segir hann.

Árni og Ólafur Örn leggja áherslu á að ekki sé hægt að tala um neyðarástand því slysavakt sé á sjúkrahúsinu í Keflavík og ýmislegt hafi verið gert til að styrkja starfsemina þar og fólk geti einnig leitað til bráðadeilda sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Árni Sigfússon vekur athygli á því að enginn læknanna sem hættu í fyrrakvöld sé búsettur á svæðinu svo ekki sé um það að ræða að þeir geti veitt nágrönnum sínum aðstoð í neyðartilvikum, eins og hægt var í gamla heimilislæknakerfinu.

"Við vonum að lausn finnist sem allra fyrst," segir Ólafur Örn í Grindavík.