ÍSLENSKA karlalandsliðið mætti Indónesíu í sjöttu umferð Ólympíumótsins í Bled, en konurnar tefldu við lið Bangladesh. Báðum viðureignunum lauk með jafntefli. Jón Garðar Viðarsson var sá eini sem sigraði andstæðing sinn í karlaliðinu, en þeir Hannes Hlífar Stefánsson og Stefán Kristjánsson gerðu jafntefli. Indónesía er í 55. sæti í styrkleikaröðinni og meðalstig sveitarinnar eru 2.425. Á tímabili gerðu menn sér vonir um góðan sigur Íslands, en smám saman varð ljóst að þær vonir mundu ekki rætast og úrslitin urðu 2-2:
1. N. Situru (2.377) - Hannes ½-½
2. Þröstur Þórhallss. - C. Barus (2.479 ) 0-1
3. S. Megaranto (2.420) - Stefán ½-½
4. Jón Garðar - A. Wahono (2.386 ) 1-0
Bangladesh er í 58. sæti í styrkleikaröðinni í kvennaflokki og því nokkru stigahærra en íslenska liðið. Enn á ný kom íslenska liðið þó á óvart og mesta athygli vakti glæsileg taflmennska Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sem kom andstæðingum sínum á óvart með skemmtilegri mannsfórn sem leiddi til sigurs. Harpa Ingólfsdóttir gerði jafntefli, en Aldís Rún Lárusdóttir tapaði. Lokaúrslitin urðu því 1½-1½.
Guðfríður Lilja - R. Hamid (2.148) 1-0
S. Zakia - Harpa ½-½
Aldís Rún - A. Khanam (2.029) 0-1
Eftir sex umferðir hefur karlaliðið 13½ vinning, en konurnar 9½ vinning. Rússar leiða í karlaflokki og hafa fengið 18½ vinning eftir yfirburðasigur gegn Bosníu 3½-½. Í kvennaflokki leiða Georgíukonur með 15 vinninga, en þær sigruðu Hollendinga 3-0.
Frábær frammistaða
Ingvar Ásmundsson virðist óstöðvandi og sigraði alþjóðlega meistarann Vladimir Karasev sem er með 2.450 skákstig í níundu umferð Heimsmeistaramóts öldunga í Naumburg í Þýskalandi. Hann er nú í 2.-10. sæti á mótinu. Í 10. og næstsíðustu umferð mætir Ingvar stórmeistaranum og píanóleikaranum Mark Taimanov sem er með 2.406 skákstig. Taimanov er vel þekktur í skáksögunni. Hann tefldi hér á landi á Reykjavíkurskákmótinu 1968, Fiske-mótinu. Hann sigraði á mótinu ásamt landa sínum E. Vasjukov, en Friðrik Ólafsson varð í þriðja sæti. Ingvar var ekki með í því móti. Einna þekktastur er Taimanov fyrir áskorendaeinvígið við Bobby Fischer í Vancouver í Kanada 1981. Líklega er Taimanov löngu búinn að gleyma því einvígi, enda tapaði hann 6-0. Hann gat þó huggað sig við að vera ekki sá eini til að sæta þeim örlögum að tapa með núlli gegn Fischer í áskorendaeinvígi. Sigur Fischers í áskorendaeinvígjunum tryggðu honum réttinn til að tefla við Spassky hér í Reykjavík 1972.
Taflfélag Garðabæjar og ChessBase í samstarf
Taflfélag Garðabæjar og ChessBase hafa gert með sér samstarfssamning. Við framkvæmd samningsins verður lögð áhersla á gott samstarf við félög um allt land, Skákskólann og SÍ. Þessi samningur gerir TG kleift að bjóða börnum og unglingum (6-16 ára) um allt land aðgang að skákþjóninum www.playchess.com þeim að kostnaðarlausu í eitt ár. TG mun bjóða félagsmönnum þeirra aðildarfélaga SÍ sem þess óska upp á það sama.TG hefur undirbúið mót fyrir U-20 ára landslið Íslands, Þýskalands, Frakklands og Svíþjóðar, en mótið fer fram á skákþjóni þeirra og er liður í Guðmundar Arasonar-hátíðinni sem er upphitunarhátíð fyrir úrslitaleikinn í Bikarkeppni ÍAV. TG og Chessbase halda mótið í sameiningu og fá allir þátttakendur Friz 7-skákforritið fyrir þátttökuna í boði TG og ChessBase.
Annað mót í sömu hátíð verður í beinu framhaldi af U-20-mótinu á sama skákþjóni. Í því taka þátt u.þ.b. 40 manns. Þar verða öll lið U-20-mótsins, auk varamanna og liðsstjóra, tveir frá TG, tveir frá þeim liðum sem detta úr undanúrslitunum og sex efstu á úrtökumóti sem fer fram á skákþjóninum. Heildarverðlaunafé á þessu móti verður bæði í formi peninga og skákforrita. Fyrstu verðlaun verða t.d. 250 evrur.
Hinn 8. desember verður síðan mót fyrir efnilega þýska og íslenska skákmenn á skákþjóninum. Leiðbeiningar á íslensku um skákþjóninn verða settar upp á heimasíðu TG.
Halló!-mót á sunnudag á ICC
Taflfélagið Hellir, Halló! og ICC standa sameiginlega að 10 móta röð á ICC sem kallast Bikarsyrpa Halló! Sjöunda mótið fer fram 3. nóvember, en það síðasta verður haldið 24. nóvember og verður það jafnframt Íslandsmótið í netskák.Þeir sem hafa teflt í einhverju af fyrri mótum bikarsyrpunnar þurfa ekki að skrá sig, heldur er nægilegt að tengjast ICC fyrir kl. 20:00 á sunnudagskvöld. Aðrir þurfa að skrá sig á www.hellir.is
Tefldar verða níu umferðir. Umhugsunartími er fjórar mínútur á skák auk þess sem tvær sekúndur bætast við eftir hvern leik.
Góð verðlaun verða í boði bæði fyrir Bikarsyrpuna og svo sjálft Íslandsmótið, en sigurvegarinn á báðum viðburðum fær ADSL-tengingu frá Halló! í eitt ár. Jafnframt gefur ICC frímánuði í verðlaun.
Alls munu tuttugu skákmenn taka þátt í landsliðsflokki Íslandsmótsins í netskák sem verður lokapunktur Bikarkeppninnar, en það verða þeir tuttugu sem flesta vinninga hafa í átta mótum í Bikarsyrpu Halló! fyrir Íslandsmótið. Aðrir skákmenn tefla í opnum flokki.
Bikarsyrpa Halló! á ICC er keppni um hver fær flesta vinninga samtals í átta af tíu mótum syrpunnar. Vinningar í landsliðsflokki Íslandsmótsins gilda tvöfalt.
Röð efstu manna í Bikarsyrpunni:
1. Björn Þorfinnsson 43½ v.
2. Snorri G. Bergsson 38 v.
3. Rúnar Sigurpálsson 35 v.
4. Arnar E. Gunnarsson 34½ v.
5. Hrannar Baldursson 33½ v.
6. Arnar Þorsteinsson 33 v.
7.-8. Davíð Ólafsson og Magnús Magnússon 32½ v.
9. Gunnar Björnsson 32 v.
10. Gylfi Þórhallsson 30½ v.
Undir 2.100 stigum:
1. Hrannar Baldursson 33½ v.
2. Magnús Magnússon 32½ v.
3. Gunnar Björnsson 32 v.
Undir 1.800 stigum:
1. Tómas Veigar Sigurðarson 21½ v.
2. Sigurður Ingason 21 v.
3. Atli Antonsson og Þórður Hrafnsson 16½ v.
Stigalausir:
1. Þórður Hrafnsson 16½ v.
2. Hlynur Gylfason 13 v.
3. Sveinn Rúnar Eiríksson 4 v.
Nánari upplýsingar um bikarsyrpuna er að finna á www.hellir.is.
Atkvöld hjá Helli á mánudag
Taflfélagið Hellir heldur atkvöld mánudaginn 4. nóvember og hefst mótið kl. 20. Fyrst verða tefldar þrjár hraðskákir þar sem hvor keppandi hefur fimm mínútur til að ljúka skákinni og síðan þrjár atskákir með tuttugu mínútna umhugsun.Sigurvegarinn fær verðlaun, mat fyrir tvo frá Dominos-pítsum. Þá verður annar keppandi dreginn út af handahófi, sem einnig fær máltíð fyrir tvo hjá Dominos-pítsum. Þar eiga allir jafna möguleika, án tillits til árangurs á mótinu.
Þátttökugjald er kr. 300 fyrir félagsmenn (kr. 200 fyrir 15 ára og yngri) og kr. 500 fyrir aðra (kr. 300 fyrir 15 ára og yngri). Teflt verður í Hellisheimilinu, Álfabakka 14a í Mjódd. Allir velkomnir.
Daði Örn Jónsson