BÆJARRÁÐ Kópavogs hefur ákveðið að auglýsa til úthlutunar lóðir í seinni áfanga norðursvæðis Vatnsenda en mikil eftirspurn var eftir lóðum í fyrri áfanganum. Úthlutun þeirra lóða var ákveðin á fundi ráðsins á fimmtudag.
Alls var úthlutað lóðum fyrir rúmlega 220 íbúðir í fyrri áfanganum en þar af eru um 180 í fjölbýli. Lóðirnar voru auglýstar þann 22. september síðastliðinn og var umsóknarfrestur til 9. október. Að sögn Birgis Sigurðssonar skipulagsstjóra var gríðarleg eftirspurn eftir þessum lóðum. "Það fóru milli sjö og áttahundruð umsóknareyðublöð frá okkur og við fengum á þriðja hundruð umsóknir. Það er eitthvað sem við höfum ekki séð fyrr, þó að áður hafi verið mikið um umsóknir. Í þetta sinn keyrði um þverbak og kerfið hjá okkur hreinlega stíflaðist."
Möguleiki á hesthúsum
Birgir segir mikið hafa verið um umsóknir frá einstaklingum. "Ég er ekki í nokkrum vafa um að öll sú umræða sem hefur átt sér stað um Vatnsendann hefur orðið til þess að fólk hefur áttað sig á hversu mikill dýrðarstaður þetta er."Að sögn Birgis varð þessi mikla eftirspurn til þess að ákveðið var í bæjarráði á fimmtudag að auglýsa lóðir í seinni hluta norðursvæðisins til úthlutunar, væntanlega í næstu viku. "Þar erum við með um 220 íbúðir, þar af um 150 í fjölbýli og síðan er restin í raðhúsum, parhúsum og tvíbýli."
Hann segir að á hluta þeirra lóða verði hægt að byggja hesthús en svo var einnig um nokkrar einbýlishúsalóðir í fyrri áfanganum. "Þó ég sé sjálfur hestamaður kom mér verulega á óvart hvað ásóknin er mikil í þennan möguleika." Hann bendir þó á að hverfið sé þekkt hesthúsasvæði og að reiðleiðir frá því séu góðar.
Þá voru verklagsreglur vegna lóðaúthlutana ræddar í bæjarráði en að sögn Birgis kveða þær meðal annars á um að lóðarumsækjandi þarf ekki að vera búsettur í Kópavogi til að fá lóð. "Það eru engin landamæri heldur skiptir fyrst og fremst máli að viðkomandi geti sýnt fram á að hann hafi fjárhagslegt bolmagn til að byggja. Það er grunnurinn."