Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra opnar formlega nýtt kjúklingasláturhús Reykjagarðs á Hellu, Jónatan Svavarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, aðstoðar Guðna við að klippa á borðann.
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra opnar formlega nýtt kjúklingasláturhús Reykjagarðs á Hellu, Jónatan Svavarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, aðstoðar Guðna við að klippa á borðann.
NÝTT kjúklingasláturhús hjá Reykjagarði á Hellu var opnað með viðhöfn í gær. Er öll vinnsla fyrirtækisins nú komin þangað. Landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, klippti á borða og gangsetti búnaðinn að viðstöddum gestum. Jónatan S.

NÝTT kjúklingasláturhús hjá Reykjagarði á Hellu var opnað með viðhöfn í gær. Er öll vinnsla fyrirtækisins nú komin þangað. Landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, klippti á borða og gangsetti búnaðinn að viðstöddum gestum. Jónatan S. Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs, leiddi gesti um nýja sláturhúsið og útskýrði starfsemina með aðstoð Rúnars Sigurðssonar verksmiðjustjóra. Á eftir ávarpaði ráðherrann viðstadda og boðið var upp á léttar veitingar.

Mál hafa gengið hratt fyrir sig hjá fyrirtækinu síðastliðið ár. Í desember 2001 var Jónatan Svavarsson ráðinn framkvæmdastjóri og var þá ljóst að fyrirtækið væri komið í rekstrarvanda. Á þeim tíma átti Búnaðarbankinn fyrirtækið að öllu leyti en í haust keypti Sláturfélag Suðurlands 67% hlut.

Í ágúst í fyrra var slátrun flutt í Móastöðina í Mosfellsbæ og Samefli tók við rekstrinum á Hellu þannig að Reykjagarður var ekki lengur með framleiðsluna í sínum höndum. Fljótlega kom í ljós að betra væri að vera með reksturinn á Hellu og í apríl á þessu ári tók Reykjagarður aftur við húsinu og hafin var endurskipulagning í framhaldi af því.

Hratt unnið að byggingaframkvæmdum

Í byrjun júlí hafði ákvörðun um bygginguna verið tekin og hafist var handa strax. Síðustu sextán vikur hefur verið unnið að byggingu nýja hússins og í lok september hófst vinna við uppsetningu tækja og búnaðar. Nú er öll vinnsla fyrirtækisins komin að Hellu en í Mosfellsbæ eru bókhalds- og söluskrifstofur.

Nýja sláturhúsið er um 1660 fermetrar að stærð og er kostnaður við byggingu og búnað innan við 200 milljónir sem telst ekki mikið að sögn Jónatans, en keyptur var notaður búnaður því ekki þótti forsvaranlegt að kaupa nýjan vegna kostnaðarins. Mestu breytinguna sagði Jónatan vera fólgna í því að nú er unnt að stýra gæðum framleiðslunnar sem ekki var hægt áður, sláturkostnaður mun lækka um 20 - 30% sem er liður í því að hafa forsendur til að lækka kjúklingaverð til neytenda og nýting framleiðslunnar kemur til með að verða meiri en áður.

Hægt að slátra 2.500 fuglum á klukkustund

"Afkastageta nýja hússins er 2500 fuglar á tímann og áætlanir gera ráð fyrir því að slátrun næsta ár skili um það bil 3000 tonnum. Til að ná þessu er slátrað í fjóra til sex tíma á dag fjóra daga vikunnar þannig að álag á húsinu er í raun mjög lítið," sagði Jónatan.

"Meðalslátrun á dag verður 10 til 15 þúsund fuglar eða 15 til 20 tonn sem fara um húsið á dag. Við byrjum með ellefu starfsmenn í nýja húsinu en þegar allur búnaður er kominn þurfum við átta. Heildar starfmannafjöldi Reykjagarðs á Hellu er sextíu manns sem vinnur við slátrun, ferskvinnslu, pökkun og fleira. Tíu manns starfa í Mosfellsbænum," sagði Jónatan. Hann sagði mikla bjartsýni ríkja um framtíð Reykjagarðs og hefði reksturinn snúist yfir í að vera jákvæður á mjög skömmum tíma.