SÆNSKIR handknattleiksunnendur voru með böggum hildar í gær eftir að landslið þeirra tapaði fyrir Dönum, 33:25, á heimsbikarmótinu í eigin heimalandi að viðstöddum á fjórða þúsund stuðningsmönnum. Sænsk dagblöð spara síst stóru orðin, sum tala um "fíaskó", önnur um auðmýkingu. Danir eru að sama skapi í sjöunda himni og blaðamaður BT tekur svo djúpt í árinni að segja að nú sé sú stund runnin upp að þeir rauðu og hvítu [Danir] leysi þá gulu og bláu [Svíar] af sem besta lið heims. "Svíagrýlan" hafi verið kvödd í Malmö.
Í Expressen er sagt að nú sjái Bengt Johansson, landsliðsþjálfari Svía, fram á að landsliðið nái hugsanlega sínum lakasta árangri á stórmóti síðan hann tók við fyrir 14 árum og vonbrigðin séu jafnmikil og þegar landsliðið hafnaði í fjórða sæti á Evrópumeistaramótinu á Spáni árið 1996. Tapið fyrir Dönum geri að verkum að Svíar eigi enga möguleika á að leika til verðlauna. Ennfremur segir blaðið að danska landsliðið hafi verið mun betra en það sænska á öllum sviðum handknattleiksins, meira að segja frábærir sænskir markverðir hafi fallið í skugga þeirra dönsku. Ennfremur segir blaðið að ungu mennirnir sem hafi fengið tækifæri til að sanna sig með sænska landsliðinu í keppninni eigi langt í land. Þá sé greinilegt að sænska landsliðið geti ekki verið án Stefans Löwgrens og Ljubomir Vranjes, en þeir eru báðir meiddir, ekki séu til leikmenn í þeirra stað.
"Þetta er lélegasti árangur sænska landsliðsins í handknattleik síðan það hafnaði í fimmta sæti á heimsbikarmótinu 1991," segir í Aftonbladet undir fyrirsögninni; "Góða nótt, strákar." Johansson landsliðsþjálfari segir enga ástæðu til að óttast þrátt fyrir þá staðreynd að sænska landsliðið leiki ekki um verðlaun á mótinu. "Við erum ekki vanir að leika um fimmta til áttunda sætið á mótum, en að það gerist nú er ekkert til að hafa áhyggjur af. Fyrir mótið æfði liðið aðeins fjórum sinnum saman. Við ætlum okkur að vera á toppnum þegar kemur að HM í Portúgal í janúar. Að þessu sinni hefur mótið veitt ung mönnunum í liðinu, þeim sem eiga að taka við, góða reynslu, " segir Johansson og bætir því við Danir hafi einfaldlega leikið mjög vel. Þess má geta að danska landsliðið æfði ekkert meira saman en það sænska fyrir mótið.
Danir eru kokhraustir
Danir eru kampakátir með sigurinn sem er sá fjórði í síðustu fimm viðureignum þjóðanna. Vonast þeir til að hafa nú kveðið "Svíagrýluna" í kútinn. Benda þeir á að margir hafi haldið því að Svíar hafi tapað viljandi fyrir þeim í riðlakeppni EM í fyrravetur. "Í gær gat enginn haldið því fram að Svíar hafi tapað viljandi, nú vorum við mikið betri frá upphafi til enda, það sáu allir," segir greinarhöfundur BT og bætir við; "Fyrstu merki þess að danskur karlahandknattleik væri að komast í fremstu röð í heiminum sáust á EM fyrir níu mánuðum. Nú eru drengir sem þá stóðu í eldlínunni orðnir að mönnum og tilbúnir að fara alla leið á toppinn. Eftir þennan leik bendir margt til þess að þeir rauðu og hvítu séu tilbúnir að leysa þá gulu og bláu af sem besta landslið heims. Þróunin hjá Torben Winther [landsliðsþjálfara] og hans mönnum hefur verið stöðug og góð og það stefnir allt í þeir geti fundið lyktina af gulli á heimsmeistaramótinu."Exstra Bladet hælir danska liðinu einnig í hástert og segir það vera á leiðinni að gullverðlaunum á HM. "Þótt þetta sé aðeins æfingamót þá segir árangurinn okkar það eigi að síður að við erum á meðal fjögurra bestu þjóða í handknattleik," segir Winther landsliðsþjálfari í samtali við blaðið.
"Enginn hinna ungu sænsku leikmanna sem komu við sögu í leiknum létu að sér kveða og enginn vafi lék á að danska liðið hafði tögl og haldir allan leikinn," segir ennfremur í Exstra Bladet og bætir við. "Í leiknum tókst Dönum að auðmýkja Svía fyrir framan sína eigin stuðningsmenn. Danska landsliðið var fullt sjálfstrausts og það er góðs viti fyrir HM í Portúgal."
Jyllands-Posten gerir leiknum einnig góð skil og þar segir m.a.: "Á tíu árum hafa allir borið sig saman við sænska landsliðið, þess vegna eru þrír sigrar gegn því í fjórum leikjum gríðarlega mikilvægt fyrir sjálfstraust liðsins þegar kemur að HM. Þegar maður hefur unnið Svía þá trúið maður því að hægt sé að vinna alla aðra," segir blaðamaður Jyllands-Posten.