JÓHANNA Sigurðardóttir hefur markað spor í íslenskri stjórnmálasögu. Hún er talsmaður þess besta sem jafnaðarstefnan hefur að geyma: Réttlætis, bættra kjara almennings og mannúðar. Baráttan gegn fátækt og misrétti, fyrir samábyrgð og félagslegum lausnum hefur ekki verið í tísku þennan síðasta áratug frjálshyggjunnar.
En það eru teikn á lofti. Frjálshyggjan hefur reynst gagnslaus við að leysa félagslegan vanda og mistekist hrapallega við að stýra fjármagninu inn á brautir arðsemi og skynsamlegra fjárfestinga. Það heyrast háværar raddir úr röðum fjármagnseigenda og hagspekinga að meta verði verðmæti fyrirtækja út frá öðru og meiru en arðseminni einni.
Mér lék forvitni á að vita hvaða dóm stjórnmálamaðurinn Jóhanna fengi frá athafnamanni úr röðum Sjálfstæðisflokksins og leitaði því til eins vinar míns, sem sagði: "Jóhanna Sigurðardóttir er heiðarleg og vinnur af hugsjón, en veit ekki alltaf hvað er arðbært fyrir íslensku þjóðina." Þetta er hárrétt en frjálshyggjan hefur sýnt og sannað að arðsemin er ekki lengur mál málanna, er að hverfa úr tísku, bæði í viðskiptalífinu og í þjóðlífinu. Nýir tímar eru að taka við.
Samfylkingin er ungur flokkur nútímalegrar jafnaðarstefnu sem ætlar sér stóran hlut í næstu kosningum. Og ég er viss um að svo muni einnig verða með fánabera jafnaðarstefnunnar, Jóhönnu Sigurðardóttur, í fylkingarbrjósti. Það eru forréttindi fyrir Samfylkinguna að hafa þessa sönnu, traustu og skeleggu baráttukonu í fyrsta sæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna og formanninn í hinu.
Ingólfur H. Ingólfsson félagsfræðingur skrifar: