ÞAÐ er mikilvægt að ungt og kraftmikið fólk veljist í framvarðarsveit Samfylkingarinnar fyrir næstu kosningar. Til þess höfum við tækifæri í flokksvalinu í Suðurkjördæmi laugardaginn 9. nóvember. Björgvin G. Sigurðsson gefur kost á sér í flokksvalinu og ég styð hann eindregið í öruggt sæti. Hann er sannur félagshyggjumaður sem ber fyrir brjósti hagsmuni þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Björgvin vann frábært starf við uppbyggingu flokksins sem framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar síðastliðin þrjú ár og hefur þá menntun og þann bakgrunn sem gerir hann að hæfum stjórnmálamanni.
Með því að kalla okkar besta fólk til leiks aukum við líkurnar á því að félagshyggjuöflin myndi öfluga ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Í þeirri framvarðarsveit vil ég sjá Björgvin og hvet ég Samfylkingarfólk í Suðurkjördæmi til að kjósa hann í öruggt sæti í flokksvalinu.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, skrifar: