[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JÓHANNA Sigurðardóttir fjallar um aukin gjaldþrot fyrirtækja í þjóðfélaginu og á hvern hátt þurfti að koma í veg fyrir misnotkun ábyrgðarsjóðs launa.

JÓHANNA Sigurðardóttir alþingismaður skrifar á vefsíðu sinni og segir: "Áætlað er að heildargreiðslur úr ábyrgðarsjóði launa vegna gjaldþrota fyrirtækja verði 600 milljónir á þessu ári, en á sl. ári voru þær 354 milljónir kr."

Mikil aukning

OG ÁFRAM segir Jóhanna: "Frá 1998 hafa greiðslur úr ábyrgðarsjóðnum rúmlega fjórfaldast. Fjöldi fyrirtækja sem úrskurðaður var gjaldþrota árið 1999 var 86. Á sl. ári hafði sá fjöldi vel rúmlega tvöfaldast og var orðinn 209. M.v. fyrstu 9 mánuði þessa árs stefnir í enn meiri fjölda á þessu ári eða nálægt 230. Þessar upplýsingar koma fram í svari félagsmálaráðherra sem dreift var á Alþingi í dag.

Langflest fyrirtæki sem verða gjaldþrota og ávísað var á greiðslum úr ábyrgðasjóði launa komu úr verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu. Þau voru 52 á sl. ári og fyrstu 9 mánuði þessa árs voru þau 44. Gjaldþrot í þessari atvinnugrein hefur nálægt tvöfaldast á sl. 2 árum. Sama gildir um bygginga- og mannvirkjagerð, en gjaldþrot í hótel- og veitingahúsarekstri voru 24 á sl. ári og eru 22 fyrstu níu mánuði þessa árs.

Félagsmálaráðherra segir í sínu svari að of mikið sé um það að vinnuveitendur reyni að halda rekstrinum of lengi áframt þótt ekki séu fyrir hendi fjármunir til að standa skil á launum og launatengdum gjöldum."

Hindra misnotkun

LOKS segir Jóhanna: "Fram kemur einnig í svarinu að í mörgum tilvikum er einnig um að ræða vanskil á vörslusköttum og er ávallt nokkuð um að slík háttsemi sæti lögreglurannsókn og ákæru, að frumkvæði skattyfirvalda, skiptastjóra þrotabús og einstakra kröfuhafa. Ráðherra boðar í svarinu til mín að á þessu þingi verði lagt fram frumvarp til að sníða af helstu vankanta af gildandi lögum, m.a. til að hindra misnotkun."