JÓHANNA Sigurðardóttir alþingismaður skrifar á vefsíðu sinni og segir: "Áætlað er að heildargreiðslur úr ábyrgðarsjóði launa vegna gjaldþrota fyrirtækja verði 600 milljónir á þessu ári, en á sl. ári voru þær 354 milljónir kr."
Mikil aukning
OG ÁFRAM segir Jóhanna: "Frá 1998 hafa greiðslur úr ábyrgðarsjóðnum rúmlega fjórfaldast. Fjöldi fyrirtækja sem úrskurðaður var gjaldþrota árið 1999 var 86. Á sl. ári hafði sá fjöldi vel rúmlega tvöfaldast og var orðinn 209. M.v. fyrstu 9 mánuði þessa árs stefnir í enn meiri fjölda á þessu ári eða nálægt 230. Þessar upplýsingar koma fram í svari félagsmálaráðherra sem dreift var á Alþingi í dag.Langflest fyrirtæki sem verða gjaldþrota og ávísað var á greiðslum úr ábyrgðasjóði launa komu úr verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu. Þau voru 52 á sl. ári og fyrstu 9 mánuði þessa árs voru þau 44. Gjaldþrot í þessari atvinnugrein hefur nálægt tvöfaldast á sl. 2 árum. Sama gildir um bygginga- og mannvirkjagerð, en gjaldþrot í hótel- og veitingahúsarekstri voru 24 á sl. ári og eru 22 fyrstu níu mánuði þessa árs.
Félagsmálaráðherra segir í sínu svari að of mikið sé um það að vinnuveitendur reyni að halda rekstrinum of lengi áframt þótt ekki séu fyrir hendi fjármunir til að standa skil á launum og launatengdum gjöldum."