1.637 eintök af nýrri Íslenskri orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar höfðu selst í forsölu á útgáfudegi bókarinnar í gær. Halldór Guðmundsson, forstjóri Eddu, segist ekki vita til að önnur íslensk bók hafi selst jafn vel í forsölu. Nýja íslensk orðabókin er þriðja útgáfa íslenskrar orðabókar frá upphafi. Bókin er í tveimur bindum, 1877 blaðsíður og 90.000 uppflettiorð. Á fjórða tug sérfræðinga var ritstjórninni innan handar með verkið.
Í stuttu erindi á útgáfuhátíðinni í gær rifjaði Halldór Guðmundsson upp að tíu ár væru liðin frá því Mál og menning hefði eignast útgáfuréttinn að Íslenskri orðabók eða Orðabók Menningarsjóðs. Hann tók fram að þeim tímamótum hefði fylgt ákveðin skuldbinding, þ.e. að sjá um að endurnýja bókina frá annarri útgáfunni 1983. "Tökum dæmi um hvað hefur gerst síðan," sagði hann. "Orð eins og farsími eða netþjónn voru ekki í síðustu útgáfu, sömuleiðis hafa mörg orð mjög breytta merkingu í vissum samböndum, eins og harður diskur eða grænn í pólitískri merkingu - og orð eins og umhverfisvænn og einkavæðing - svo nærtæk dæmi séu tekin um breytinguna í málumhverfi okkar. Eða orð eins og mannauður, í 1963 útgáfunni þýddi orðið yfirgefið svæði."
Áhersla á reynsluheim kvenna
Eftir að Halldór hafði komið á framfæri þökkum til allra er unnið hafa að orðabókinni gaf hann Merði Árnasyni ritjstóra bókarinnar orðið. Mörður gerði grein fyrir orðabókarvinnslunni og þeim breytingum sem orðið hafa frá fyrri útgáfum.Mörður svaraði því hvernig sér liði á útgáfudegi bókarinnar í samtali við Morgunblaðið. "Mér líður vel. Það er ofsalega gaman að fá bókina sem þeir í Odda hafa gert ákaflega vel úr garði í hendurnar eftir allan þennan tíma. Ég neita því þó ekki að ég er aðeins kvíðinn við að fletta mikið í henni. Ég ætla að láta það bíða nokkrar vikur. En ég er mjög ánægður í dag með þetta verk."
Hann var spurður að því hvort hann væri sérstaklega ánægður með einhverja tiltekna þætti í bókarinnar. "Ég er kannski sérstaklega ánægður með tvennt," svaraði hann. "Annars vegar þær breytingar sem við höfum gert í málfarsefnum, nýtt snið á leiðbeiningum okkar um málfar sem telst ekki fullkomlega viðurkennt. Ég tel að það sé til bóta og í samræmi við þær breytingar á málstefnu sem hafa orðið og eru að verða. Hins vegar viðurkenni ég að ég er líka stoltur af þeirri áherslu sem við höfum þó lagt á það orðfæri sem stundum er sagt vera úr reynsluheimi kvenna. Við höfum lagt áherslu á að koma inn í bókina grundvallarorðum um fatnað, heimilistæki, matargerð, eldhús, snyrtivörur o.s.frv. Þetta vantaði svolítið í hinar eldri bækur."
Mörður afhenti Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, fyrsta eintak bókarinnar.
"Þessi bók þ.e.a.s. forveri hennar hefur verið mér sem mörgum öðrum trúföst fylgikona í gegnum tíðina og komið mér að miklu gagni. Ef við erum borin saman virðist hún þó hafa komið mér að meira gagni en ég bókinni því að mín bók er mjög sundurbarin heima og hef ég þó ekki notað hana til þess að lemja fólk með henni í höfuðið. Eins og sumir ofsakenndir lærifeður kunna að hafa gert forðum tíð. En það er enginn vafi á því að útgáfan, ritstjórinn og ritstjórnin eiga miklar þakkir skildar fyrir að hafa haldið svo vel á lofti því merki sem fyrsta útgáfa bókarinnar reisti," sagði Davíð og færði aðstandendum bókarinnar þakkir frá öllum orðabókanotendum.
Að lokum minntist Örnólfur Thorlacius, fyrrverandi rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, Árna Böðvarssonar, ritstjóra Íslenskra orðabóka Menningarsjóðs 1963 og 1983.