Sigurbjörg Þrastardóttir þakkar fyrir sig. Kjartan Ólafsson, Stefán Jón Hafstein og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fylgjast með.
Sigurbjörg Þrastardóttir þakkar fyrir sig. Kjartan Ólafsson, Stefán Jón Hafstein og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fylgjast með.
SIGURBJÖRG Þrastardóttir hlýtur bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár, fyrir handrit að skáldsögunni Sólar sögu. Borgarstjóri afhenti Sigurbjörgu verðlaunin við athöfn í Höfða í gær.

SIGURBJÖRG Þrastardóttir hlýtur bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár, fyrir handrit að skáldsögunni Sólar sögu. Borgarstjóri afhenti Sigurbjörgu verðlaunin við athöfn í Höfða í gær.

Sigurbjörg var að vonum ánægð með verðlaunin, en Sólar saga er fyrsta skáldsaga hennar.

"Þetta er saga um unga íslenska stúlku, sem vill heita eftir sólinni, en það vill þó ekki betur til en svo, að hún ratar í ýmsa skugga og skuggalönd. Hún býr í borg í útlöndum, og þar verður hún fyrir mjög erfiðri lífsreynslu. Sagan lýsir því hvernig hún tekst á við þessa reynslu með sínum einkennilega hætti. Hún ákveður að segja engum frá því sem hefur gerst, og býr sér til sína eigin áfallahjálp sem hún heldur að muni þrælvirka, en það er ákveðinn misskilningur, eins og gefur að skilja. Aðferð hennar til að takast á við vandann er að snúa sér að borginni sjálfri sem hún býr í, borginni sem áþeifanlegum hlut, í stað þess að snúa sér að fólki."

Sigurbjörg Þrastardóttir fæddist á Akranesi árið 1973. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi 1993, B.A. prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1997 og námsbraut í hagnýtri fjölmiðlun 1998.

Ljóðabókin Blálogaland kom út vorið 1999 en fram að því hafði Sigurbjörg unnið til ýmissa verðlauna fyrir ljóð sín og sögur, meðal annars hjá Ríkissjónvarpinu og Stúdentablaðinu. Þýðingar ljóða hennar hafa meðal annars birst í þýskum, skoskum og ítölskum bókmenntatímaritum, auk íslenskra safnljóðabóka. Í hittifyrra kom út önnur ljóðabók Sigurbjargar, Hnattflug, sem vakti umtalsverða athygli. Sigurbjörg hefur því lengi verið handgengin ljóðinu.

"Það er talsvert öðru vísi vinna að semja skáldsögu en að yrkja ljóð. Ég brást alltaf mjög illa við þegar fólk var að spyrja mig hvenær ég ætlaði að fara að skrifa bók, eins og fólk orðaði það. Ég var þá búin að gefa út eina, og svo tvær ljóðabækur og skrifa í ýmsar fleiri bækur, þannig að mér fannst þetta frekar móðgandi. Fólk var auðvitað að tala um skáldsögu. Mér fannst það af og frá að ég myndi semja skáldsögu, fannst þetta alveg sitt hvor greinin. Allt er þetta þó vinna með orð, glíma við hugmyndir, og að því leyti nýtist margt sem maður hefur rekið sig á í ljóðunum, en að öðru leyti er margt nýtt, erfitt í skáldsögunni. Það getur verið flókið að halda um svo stóran heim sem skáldsagan er."

Sigurbjörg kannast því vel við það að þess sé vænst af ljóðskáldum að þau geri atrennu við skáldsöguformið. "Það er eins og ljóðið eigi að vera einhvers konar upphitun fyrir skáldsöguna, en það finnst mér vafasamt viðhorf. En þessi skáldsaga byrjaði að vaxa einhvern veginn inni í mér smám saman og mér fannst ég ekki geta skorast undan því að skrá hana. Kannski verður þetta eina skáldsagan mín, því ég sakna ljóðanna strax og þykir mjög vænt um þau. Ég hef ekkert svikið þá deild."

Sigurbjörg starfar sem blaðamaður á Morgunblaðinu.

Sólar saga kemur út hjá JPV útgáfunni innan skamms.