Þegar farþegar með Flugleiðum koma til Minneapolis tekur ljóshærð kona á móti þeim, innileg og brosandi, og býður þá velkomna. Hún kveður þá líka á sama hátt við brottför og þekkir orðið marga ferðalangana. Þeir muna líka eftir henni enda er hún einstaklega almennileg við alla. "Þegar ég var í Reykjavík í stuttri helgarferð í haust mætti ég tveimur mönnum á gangi í miðborginni," segir Jessica Ginger, stöðvarstjóri Flugleiða í Minneapolis. "Ég brosti til þeirra og þá sagði annar: "Þú vinnur hjá Flugleiðum í Minneapolis." Þarna var ég með íslenskum vinum mínum langt frá heimili mínu og vinnustað en vegfarendur mundu eftir mér og það kunni ég vel að meta."
Stórt hjarta
Jessica hefur unnið hjá Flugleiðum síðan í mars 1999, en tók við stöðvarstjórastarfinu í desember í fyrra. Hún vann áður í 14 ár hjá bandaríska flugfélaginu North West Airlines, sem er einmitt með höfuðstöðvar sínar í Minneapolis, og sem slík aðstoðaði hún Flugleiðir við að koma sér fyrir á flugvellinum. Að undanförnu hafa verið sex flugferðir á viku á sumrin en fjórar á veturna. Jessica er eini starfsmaður Flugleiða í Minneapolis, er með skrifstofu á flugvellinum og sinnir því sem sinna þarf, hvort sem það tengist farþegum, farangri þeirra eða frakt. NWA sér um almenna þjónustu og fjórir starfsmenn félagsins aðstoða Jessicu við innritunina. "Það hjálpar mér í þessu starfi að hafa unnið hjá North West," segir hún. "Ég veit hvernig félagið starfar og starfsmönnum þess er kunnugt um þarfir mínar en vegna þessa gagnkvæma skilnings ganga hlutirnir upp. Hins vegar er því ekki að neita að stundum þarf ég að vera á þremur stöðum í einu."Eins og gefur að skilja ferðast nær allir íslenskir gestir til Vesturheims með Flugleiðum og síðan í apríl 1998 hafa mjög margir þeirra farið um Minneapolis, en þá hófu Flugleiðir áætlunarflug til borgarinnar. Á svæðinu eru margir af norrænum uppruna og þeir sem fara frá Minneapolis til Norðurlandanna notfæra sér gjarnan þjónustu félagsins. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Flugleiða, flutti félagið um 50 þúsund farþega á flugleiðinni milli Minneapolis og Íslands fyrsta árið og hefur þeim fjölgað mikið síðan. Jessica segir að fjölgun farþega megi rekja til mjög góðrar þjónustu við farþegana. Eins hafi vinsældir Íslands sem áfangastaðar aukist og hafa beri í huga norrænan uppruna margra íbúa Minneasota. Á sumrin leiti Bandaríkjamenn af norrænum ættum oft uppruna síns og þá ferðist fjölskyldurnar gjarnan til Norðurlandanna, en allir áfangastaðir Flugleiða í Evrópu séu reyndar vinsælir. "Það tók tíma að festa rætur enda eru íbúar Minnesota íhaldssamir í eðli sínu og tregir til að breyta. Þeir hafa alltaf haft North West og það tók þá tíma að samþykkja nýtt flugfélag. Ég hef alltaf sagt að við værum lítið flugfélag með stórt hjarta og lagt áherslu á að byggja upp gott samband við viðskiptavinina með þeim árangri að þeir koma aftur ár eftir ár."
Vinalegt umhverfi
Hún leggur áherslu á að farþegarnir á austurleið komi alls staðar frá. "Minneapolis er vel í sveit sett í sambandi við tengiflug og við njótum góðs af því - fáum ekki bara farþega frá næsta umhverfi heldur líka frá vesturströndinni og Kanada svo dæmi séu tekin. Auk þess ekur fólk til Minneapolis frá til dæmis Norður- og Suður-Dakota, Iowa, Kansas, Wisconsin og Illinois til að fljúga með okkur. Eftir 11. september í fyrra skiptir líka máli hérna að Flugleiðir eru erlent flugfélag, því hryðjuverk hafa fyrst og fremst beinst að bandarískum flugfélögum. Auk þess erum við lítið félag sem ekki fer mikið fyrir í samanburði við stóru, bandarísku félögin og við höfum sannað okkur í samkeppninni."Glaðlyndi og kátína eru áberandi í fari Jessicu og aðspurð segir hún að ekkert vandamál hafi verið svo stórt að ekki hafi verið hægt að leysa það, en það megi meðal annars þakka góðu og traustu aðstoðarfólki, sem hafi starfað með henni í þrjú og hálft ár. Eins hafi aðstaðan mikið að segja. "Þó að flugstöðin hérna sé stór er auðvelt að rata um bygginguna. Minnesota er vingjarnlegt ríki og flugvöllurinn vinalegur."
"Íslensk" áhugamál
Hún er frá Norður-Wales og þar fékk hún áhuga á að renna sér á skíðum auk þess sem hún tók ástfóstri við Liverpool í ensku knattspyrnunni. "Kevin Keegan, fyrrverandi leikmaður Liverpool, bjó rétt hjá góðum vinum mínum og ég fór stundum út að ganga með hundinn hans."Á sumrin fljúga Flugleiðir m.a. á sunnudögum til og frá Minneapolis, en ekki á veturna og því átti Jessica allt í einu frí síðastliðinn sunnudag. "Ég er alltaf í vinnunni og vissi ekki hvað ég átti að gera af mér en nýtti tímann til að standsetja kjallarann heima. Annars þykir mér gaman á skíðum og fer gjarnan til Montana á skíði þegar ég á frí á veturna. En framundan er flug og því þýðir ekki að hugsa um frístundir."
steg@mbl.is