KAUPFÉLAG Eyfirðinga - samvinnufélag hefur ákveðið að styrkja starfsemi Háskólans á Akureyri, en í yfirlýsingu sem Benedikt Sigurðarson, formaður KEA, og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, undirrituðu kemur fram að félagið muni kosta skilgreind styrktarverkefni innan háskólans.
Um getur verið að ræða tímabundna fjármögnun á stöðugildum prófessora, dósenta, lektora eða rannsóknarmanna við háskólann.
Einnig getur verið um að ræða verkefni er varða rekstur þróunarseturs eða annarra afmarkaðra eininga innan háskólans eða þá beinan stuðning við rannsóknir starfsmanna eða framhaldsnámsnemenda. Næstu fimm ár mun KEA verja fjármagni til þessara styrktarverkefna sem svarar launakostnaði við eina prófessorsstöðu á ári.
"Þetta er einn mesti stuðningur sem fyrirtæki á Akureyri hefur veitt háskólanum og er til mikillar fyrirmyndar," sagði Þorsteinn. Hann fagnaði því einnig að styrkurinn væri ekki fyrirfram skilyrtur ákveðnu verkefni, en það gæfi möguleika á að vinna að verkefnum "beint frá grasrótinni", eins og hann orðaði það.
"Þessi stuðningur er mikil viðurkenning á störfum þess fólks sem starfar hjá Háskólanum á Akureyri," sagði Þorsteinn.