HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur hafnað kröfum grænmetisfyrirtækjanna Ágætis, Mötu og Sölufélags garðyrkjumanna um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá því júní í fyrra um ólögmætt samráð fyrirtækjanna verði felldur úr gildi í heild sinni.
Í úrskurði áfrýjunarnefndar var fyrirtækjunum gert að greiða 47 milljónir í stjórnvaldssekt en héraðsdómur lækkaði sektir á fyrirtækin í 37 milljónir króna. Í úrskurði Samkeppnisráðs á sínum tíma var sektin ákveðin 105 milljónir og hefur hún því lækkað um 68 milljónir eða 65% í meðferð málsins.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Skúli J. Pálmason, Friðgeir Björnsson og Hervör Þorvaldsdóttir.
Aðspurður um sektarupphæðir bendir Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar, á að engin hefð hafi skapast hvað upphæð sekta varðar; þetta hafi verið í fyrsta sinn sem stjórnvaldssektum hafi verið beitt af samkeppnisyfirvöldum og líklega í fyrsta og eina skiptið sem þeim hafi verið beitt vegna samráðs fyrirtækja og í fyrsta sinn sem mál af þssu tagi komi til kasta dómstóla.
Átti að vera ljóst að aðgerðir brytu gegn samkeppnislögum
Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar kom fram að henni hafi þótti sannað að fyrirtækin hafi beitt verðsamráði, framleiðslustýringu, markaðsskiptingu og öðrum aðgerðum til að skipta markaði varðandi viðskipti með grænmeti, kartöflur og ávexti, draga úr framboði og halda uppi verði. Um hafi verið að ræða samráð sjálfstæðra fyrirtækja, sem stefnt hafi að því að koma fram sameiginlegum markaðshagsmunum sínum. Þennan skilning staðfestir héraðsdómur og eins hitt að stjórnendum félaganna hafi mátt ljóst vera að aðgerðir þeirra brytu í bága við samkeppnislög.Til vara fóru félögin þrjú fram á það við héraðsdóm að stjórnvaldssektir yrðu felldar niður eða lækkaðar og lækkaði héraðsdómur sektir; Sölufélaginu er gert að greiða 20 milljóna króna í sekt en í úrskurði áfrýjunarnefndar var sektin ákveðin 25 milljónir. Bönunum er gert að greiða 14 milljónir króna sekt í stað 17 milljóna skv. úrskurði áfrýjunarnefndarinnar og Mötu er gert að greiða þriggja milljóna króna sekt í stað fimm milljóna áður.
Annmarkar réttlæta ekki ógildingu
Héraðsdómur segir að málsmeðferðarreglur fyrir samkeppnisráði virðist fara nokkuð á sveig við viðurkennd sjónarmið um óhlutdrægni og jafnræði. Það fyrirkomulag að sami aðili rannsaki mál og leiði það síðan til lykta með ákvörðun eða úrskurði feli í sér hættu á hlutdrægni.Byggist sú afstaða héraðsdóms á því að rannsakanda hætti til að líta sínum augum á álitaefnið. Héraðsdómur telur að þrátt fyrir þetta hafi ekki verið þeir annmarkar á málsmeðferðinni að þeir réttlæti ógildingu málsins.