ÁRSFUNDUR Alþýðusambands Íslands samþykkti í gær sérstaka yfirlýsingu um áherslur og helstu verkefni ASÍ í velferðarmálum þar sem m.a. eru lagðar til breytingar á heilbrigðiskerfinu.

ÁRSFUNDUR Alþýðusambands Íslands samþykkti í gær sérstaka yfirlýsingu um áherslur og helstu verkefni ASÍ í velferðarmálum þar sem m.a. eru lagðar til breytingar á heilbrigðiskerfinu.

,,Til þess að tryggja nýsköpun og endurnýjun velferðarkerfisins og aukið kostnaðaraðhald, þarf að skapa betri forsendur og möguleika á að þróa þjónustutilboð frá einkaaðilum. Þau uppfylli það grundvallarskilyrði að tryggja jafnan aðgang óháð efnahag og búsetu en leiði ekki til aukinnar félagslegrar misskiptingar.

Þröngir efnahagslegir hagsmunir markaðarins um að skapa viðskipti og hagnað mega ekki ógna markmiðum um jafnan aðgang, réttlæti og gæði þjónustunnar.

Nýta má kosti tilboða frá einkaaðilum við framkvæmd þjónustu til þess að draga úr kostnaði, en ábyrgð á þjónustustigi og gæðum verði hjá opinberum aðilum," segir m.a. í yfirlýsingu ársfundar ASÍ.

Notkun peningalegra hvatakerfa verði þróuð

Þar segir einnig að mikilvægt sé að þróa og endurnýja aðferðir við stjórnun og eftirfylgni hjá hinu opinbera. "Notkun peningalegra hvatakerfa, gæðastjórnunaraðferða og annarra markaðsstjórntækja verði þróuð," segir einnig í yfirlýsingunni.

Áhersla er lögð á að sett verði aukið fjármagn í hjúkrunarrými fyrir aldrað sjúkt fólk og til að tryggja öruggan rekstur þeirra og að verkaskipting milli sjúkrahúsa og sérfræðilækna verði endurskoðuð.

Samkeppnislög nái ekki til heilbrigðiskerfisins

Í yfirlýsingunni er einnig lagt til að verkefnum heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins verði skipt upp og sjálfstæði Tryggingastofnunar ríkisins verði aukið og tryggt í lögum. "Sett verði í lög skýrari ákvæði um samningsfrelsi stofnunarinnar. Skylda hennar til þess að semja við einstaka lækna verði afnumin. Fjölgun sérfræðilækna á samningum verði því aðeins heimiluð að hún falli að þörfum og verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu. Tryggt verði að samkeppnislög nái ekki til heilbrigðiskerfisins," segir þar ennfremur.

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, sagði í ræðu er hann sleit ársfundi sambandsins síðdegis í gær, að þjóðarumræðan um velferðarkerfið þyrfti að leiða til þjóðarsáttar. "Það virðast hins vegar engir aðilar í þjóðfélaginu vera til þess fallnir að hafa forystu um að skapa nauðsynlega þjóðarsátt, nema verkalýðshreyfingin. Ábyrgð okkar í þessu efni er því mikil. Við munum ekki skorast undan henni frekar en á öðrum sviðum. Við skulum því vera við því búin að halda þessari umræðu áfram, og af enn meiri þunga en hingað til," sagði hann.