Tvær konur ganga framhjá glugga skrifstofu Evrópusambandsins í Varsjá. Líkur eru á að Pólland ásamt níu öðrum ríkjum fái aðild að Evrópusambandinu árið 2004.
Tvær konur ganga framhjá glugga skrifstofu Evrópusambandsins í Varsjá. Líkur eru á að Pólland ásamt níu öðrum ríkjum fái aðild að Evrópusambandinu árið 2004.
HAUSTVINDARNIR í íslenskum stjórnmálum blása ekki með aðild Íslands að ESB. Það gefur fátt tilefni til að ætla að kosið verði um aðild eða aðildarviðræður í vor.

HAUSTVINDARNIR í íslenskum stjórnmálum blása ekki með aðild Íslands að ESB. Það gefur fátt tilefni til að ætla að kosið verði um aðild eða aðildarviðræður í vor. Stuðningsmenn aðildar hafa reynt að ná þessu baráttumáli sínu á flot í haust en ekki fengið byr í seglin, enda bæði sterk andstaða og lítill áhugi. Hvorttveggja andstaðan og áhugaleysið byggjast á gildum rökum. Það er nefnilega ekkert sem knýr á um aðild Íslands að ESB í dag. Við stöndum vel í samanburði við aðildarríki ESB í flestu tilliti auk þess sem óvissa ríkir um framtíð sambandsins.

Það verður ekki litið framhjá þeirri öfgalausu og skynsamlegu afstöðu margra andstæðinga aðildar að rétt sé að bíða og sjá hvers konar samband verður til eftir þær breytingar sem ESB gengur nú í gegnum. Hvað gerist þegar ESB breytist úr sambandi 15 ríkja í samband 25 ríkja? Þegar við vegum og metum hagsmuni Íslendinga innan og utan ESB verðum við að vita um hvaða Evrópusamband við erum að tala. Í þennan streng tók forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondevik, en hann sagði á afmælisþingi Norðurlandaráðs í vikunni að aðild Norðmanna að ESB yrði ekki á dagskrá norskra stjórnmála fyrr en vitað væri hvernig ESB liti út, sem yrði ekki á næstunni.

Á Íslandi er líka fátt sem bendir til þess að aðildin verði á dagskrá stjórnmálanna á næstunni. Það þýðir ekki að umræða um málin sé ekki á dagskrá. Hún er alltaf á dagskrá. Á þessu er grundvallarmunur. Afstaða Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er skýr. Það verður örugglega ekki á stefnuskrám þessara flokka í vor að sækja um aðild að ESB. Af ummælum forystumanna Frjálslynda flokksins undanfarið að dæma virðist sama þar uppi á teningnum. Skoðanakannanir hafa sýnt að sterk andstaða er við aðild meðal kjósenda Framsóknarflokksins og ýmsir áhrifamenn í flokknum telja hagsmunum Íslendinga betur borgið utan sambandsins. Og í sterkasta vígi aðildarsinna, Samfylkingunni, galt aðeins um fimmtungur atkvæðisbærra manna einni þríhlaðinni spurningu jáyrði sitt í nýafstaðinni Evrópukosningu. Á þeim bláþræði hangir stefna forystu Samfylkingarinnar í Evrópumálum. Erfitt er að álykta nokkuð á grundvelli niðurstöðunnar um afstöðu almennra flokksmanna eða kjósenda Samfylkingarinnar til aðildar Íslands að ESB. Það blasir við á hversu veikum pólitískum grunni málið byggist á Íslandi.

Er þá einhver ástæða til þess að spyrja hvort kosið verði um aðild að ESB í vor? Kannski ekki. Ef til vill er málið sjálfdautt. Margir nefna að staða málsins í kosningunum ráðist af afstöðu Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins. Forystumönnum Samfylkingarinnar muni ekki takast óstuddum að halda áhuga kjósenda. Þetta er sennilega rétt mat. Á ráðstefnu ASÍ í haust um Evrópusamvinnu og hagsmuni launafólks sagði Halldór eftirfarandi: "Spurningin um Evrópuaðild okkar er því ekki aðeins á dagskrá - hún hlýtur að verða kosningamál eins og aðrar spurningar sem snerta lífskjör og aðstöðu okkar til lengri tíma litið." Í viðtali við DV sem birtist eftir ráðstefnuna, sagði hann svo: "Hvort aðild að Evrópusambandinu sem slík verður kosningamál er svo annað mál." Þar sem fullyrðingarnar stönguðust á sagði hann til nánari útskýringar: "Við hljótum að meta það þegar nær dregur kosningum hvernig okkur hefur gengið að tryggja stöðu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Við hljótum að meta stöðu okkar varðandi þá samninga sem eru framundan við ESB um tolla og önnur réttindi okkar sem munu breytast við stækkun sambandsins. Þannig að þetta mál er á mikilli ferð. Að hve miklu leyti það kemur inn í kosningabaráttuna hlýtur að ráðast af stöðu málsins þegar nær dregur kosningum."

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, sem gegna nú formennsku innan ESB, gerði grein fyrir þeirri stefnu ESB á afmælisþingi Norðurlandaráðs að ganga til viðræðna við EFTA-ríkin strax eftir áramót um aðgang þeirra að mörkuðum nýju aðildarríkjanna og greiðslur í þróunarsjóði sambandsins í tengslum við stækkunina. Forsætisráðherrar Íslands, Noregs og Danmerkur voru bjartsýnir á að sanngjörn lausn næðist í þessum viðræðum. Af því má ráða að þetta verði ekkert stórvandamál, sem breyti samskiptum EFTA og ESB. Það er ekkert fararsnið á EES-samningnum eins og oft hefur verið haldið fram. Ef leiðtogar Norðurlandaþjóðanna hafa rétt fyrir sér virðist útséð með afstöðu Halldórs Ásgrímssonar ef litið er til framangreindra ummæla hans.

Langlíklegast er að aðild Íslands að ESB verði ekki stóra kosningamálið í vor. Mín tilfinning er sú að þau mál sem venjulega brenna heitast á fólki muni geri það í kosningunum. Efnahags- og velferðarmál, heilbrigðis- og menntamál auk öryggis- og varnarmála. Spurningin um aðild að ESB brennur ekki svo á fólki þessa dagana. Enda hafa eflaust flestir áttað sig á því í rökræðu undanfarinna vikna og mánaða að aðild Íslands að ESB er ekki töfralausn á neinu vandamáli sem glímt er við á Íslandi. Það er t.d. misskilningur að hún lækki hér sjálfkrafa vexti og vöruverð. Og það er líka misskilningur að Íslendingar muni búa við óbreyttan hag af sjávarútvegi innan sem utan sambandsins. Ákafamönnum um aðild hættir til að reyna að vekja vonir í brjóstum Íslendinga með fljótfærnislegum yfirlýsingum, sem standast sjaldan nánari skoðun, um að ESB komi og leysi vandamálin. Það verður áfram verkefni okkar sjálfra.

Ef Íslendingar stæðu frammi fyrir því vali í vor að sækja um aðild að ESB með þeirri óvissu sem það hefur í för með sér, og greiða fyrir þann aðgang milli níu og tólf milljarða króna á ári, tel ég að þeir segðu langflestir nei. Engu breytir þótt skipt sé út orðinu "aðild" fyrir orðið "aðildarviðræður". Orðin í þessu samhengi merkja það sama. Umræða um samstarf Íslands við Evrópuþjóðir er mikilvæg og nauðsynleg. Eins og umræða um stöðu Íslands í heiminum almennt. Við stöndum frammi fyrir umræðunni og verðum að taka þátt í henni. En við stöndum ekki frammi fyrir því að taka ákvörðun um aðild að ESB. Svarið við spurningunni um hvort það verði kosið um aðild Íslands að ESB í vor er því einfalt. Nei, örugglega ekki.

Eftir Birgi Tjörva Pétursson

Höfundur er framkvæmdastjóri Framsýnar.

Höf.: Birgi Tjörva Pétursson