STJÓRN Höfuðborgarsamtakanna hefur farið fram á það við Flugmálastjórn að hún geri opinberlega grein fyrir kostnaði við byggingu flugvallar í Vatnsmýri á árunum 1999 - 2002. Þá er óskað eftir skýringum á því hvers vegna byggingu NA-brautar var flýtt.

STJÓRN Höfuðborgarsamtakanna hefur farið fram á það við Flugmálastjórn að hún geri opinberlega grein fyrir kostnaði við byggingu flugvallar í Vatnsmýri á árunum 1999 - 2002. Þá er óskað eftir skýringum á því hvers vegna byggingu NA-brautar var flýtt. Flugmálastjóri segir sjálfsagt að opinbera kostnað við verkið þegar uppgjöri er lokið.

Í bréfi samtakanna er sérstaklega óskað eftir skýringum á tildrögum þess að framkvæmdum við NS-brautina var flýtt um eitt ár aðeins þremur vikum eftir almenna atkvæðagreiðslu um framtíð Vatnsmýrarinnar. Eins er óskað eftir útskýringum á áhrifum flýtingarinnar á fjármálasamskipti og verksamning Flugmálastjórnar og Ístaks, sem var verktaki við framkvæmdirnar. Þá er beðið um upplýsingar um fjármögnun og kostnað við flýtinguna.

Að sögn Þorgeirs Pálssonar flugmálastjóra er eðlilegt og sjálfsagt að gera grein fyrir kostnaði við verkið. "Það liggur í hlutarins eðli að þetta verk verður tekið út mjög vandlega og yfirfarið af öllum þar til bærum yfirvöldum. Hins vegar er varla búið að klára uppgjör á verkinu ennþá."

Segir atkvæðagreiðsluna ekki hafa haft áhrif

Hann segir að verkið hafi allt verið unnið á þremur árum eins og upphaflega var áætlað. "Það er rétt að við hefðum unnið þetta meira á árinu 2002 en raunin varð því flýtingin fólst í því að ákveðnir verkþættir voru fluttir fram til ársins 2001 frá árinu 2002. Það þýddi að þessi flugbraut komst í notkun í heilu lagi í stað þess að því væri skipt í tvo áfanga sem hefði bæði haft óþægindi og kostnað í för með sér."

Hann vísar því á bug að atkvæðagreiðslan um framtíð Vatnsmýrarinnar hafi haft einhver áhrif á þessa ákvörðun. "Hér hafa menn verið fyrst og fremst að hugsa um flugöryggi og að þessi flugvöllur stæðist þær kröfur sem eru gerðar til slíkra mannvirkja. Atkvæðagreiðslan var ekki einu sinni í okkar huga og skipti ekki nokkru máli í þessu sambandi. Reyndar vildum við upphaflega klára þetta verk á tveimur árum og það voru ekki síst verktakarnir sem höfðu áhuga á því þar sem það liggur ákveðinn kostnaður í því að vera með aðstöðu handbæra í þetta langan tíma."