ERLENDUR Hjaltason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Eimskipa ehf., í kjölfar skipulagsbreytinga sem kynntar voru starfsmönnum Eimskipafélagsins á fundi í fyrradag. Eimskipafélaginu verður skipt í þrjú félög um áramót; Eimskip ehf., sem sjá um flutningastarfsemi, sjávarútvegshluta auk Burðaráss, en hlutverk þess síðastnefnda verður óbreytt.
Erlendur hóf störf hjá Eimskipum árið 1984, en hann starfaði að markaðsmálum til 1987. Árin 1987-1990 starfaði hann sem framkvæmdastjóri Kristjáns Siggeirssonar, en frá 1990 hefur hann unnið hjá Eimskipum að málum sem tengjast starfsemi þeirra erlendis. Hann hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra utanlandssviðs síðan 1997.
Erlendur segir að fyrsta verkefnið verði að bæta afkomu félagsins "Við sjáum ákveðinn afkomubata í uppgjöri fyrir fyrstu níu mánuði ársins, samanborið við sama tímabil í fyrra. Verkefnið er að halda áfram á þeirri braut," segir hann.
Aðspurður hvort vænta megi skipulagsbreytinga segir hann að þær verði einhverjar. "Við munum taka okkur nóvembermánuð í að vinna að þeim," segir Erlendur.
Erlendur er kvæntur Aðalheiði Valgeirsdóttur myndlistarmanni og eiga þau tvo syni.