HAGNAÐUR Nýherja hf. eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins nam 78 milljónum króna, samanborið við 93,6 m.kr. tap árið áður. Rekstrartekjur tímabilsins námu 3.208,9 m.kr. og jukust um 13% á milli ára. Vörusala hefur aukist um 11% á milli ára og þjónustutekjur um 25%.
Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir, EBITDA, var 171,5 m.kr. en var 29,8 m.kr. árið áður. Veltufé frá rekstri nam 127 milljónum, samanborið við neikvætt veltufé um 23 m.kr. árið áður. Gengishagnaður var 22,5 milljónir króna, en gengistap nam 67,7 m.kr. árið áður. Tap af rekstri dótturfélaga var 1,5 milljónir, en árið áður varð 8 m.kr. tap af þeim rekstri.
24 milljóna hagnaður í fjórðungnum
Hagnaður af rekstri Nýherja í þriðja ársfjórðungi nam 24,2 m.kr. eftir skatta, samanborið við 57 m.kr. tap árið áður. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir, EBITDA, var 57 m.kr. í fjórðungnum, borið saman við 23 milljóna tap árið áður. Rekstrartekjur námu 1.138,4 m.kr. en voru 843,2 m.kr. árið áður og hækkuðu því um 35%. Vörusala jókst um 37% og þjónustutekjur jukust um 29% á milli fjórðunga.Hlutfall EBITDA af veltu í fjórðungnum var 5% samanborið við -3% á sama tímabili árið áður. Hlutfallið var 5,5% fyrstu sex mánuði ársins. Starfsmönnum fjölgaði um 3% á milli ára en launakostnaður hækkaði um 17% miðað við sama tíma árið áður. Annar rekstrarkostnaður og afskriftir hækkuðu um 20% á milli tímabila. Aukinn launa- og rekstrarkostnaður er aðallega vegna nýrra starfsmanna sem hófu störf hjá félaginu þegar starfsemi HT&T og umboð fyrir Heidelberg voru sameinuð rekstri félagsins. Einnig hafa útgjöld við sölu- og markaðsstarfsemi aukist.
Veltufé frá rekstri á ársfjórðungnum var 44 milljónir króna en var neikvætt um 2 m.kr. á þriðja ársfjórðungi árið áður. Gengistap nam 736 þús. kr. en var 24 m.kr. árið áður. Tap af rekstri dótturfélaga nam 2,3 m.kr. en tapið var 7,8 milljónir fyrir sama tímabil í fyrra.