"Alltof oft þegar þessi mál eru rædd tvímenna tvískinnungur og hræsni á sömu dróginni."

ÞAÐ var býsna merkileg niðurstaðan í fregn einni í DV nýlega þar sem sagt var frá einhverri samkomu framhaldsskólanemenda að Skógum, samkomu sem greinilega var þeim til sóma sem þar voru. Fregnin bar enda fyrirsögnina: Áfengislaus vinnu- og gleðiferð. Í niðurlagi fregnarinnar stóð hins vegar orðrétt: "Kvöldinu var síðan eytt í góðu yfirlæti á Skógum í gamla héraðsskólanum án áfengis. Því það var ein meginreglan að helgin var með öllu áfengislaus. Þrátt fyrir það áttu allir hinar notalegustu stundir í Skógum.

Síðasta setningin hefði nefnilega einmitt átt að hljóða svo: Einmitt þess vegna áttu allir hinar notalegustu stundir í Skógum.

Ekki ætla ég þeim sem skrifaði annað en athugunarleysi sakir ályktunar sinnar, en upp í hugann kemur þó hið dæmigerða viðhorf svo alltof margra að ekki sé unnt að eiga notalega skemmtistund nema hafa áfengið sem sjálfsagðan förunaut.

Hafi nemendurnir mikla þökk fyrir sína góðu forsendu gleðiferðarinnar sem eðlilega afsannaði þessa villukenningu.

Enn meiri athygli mína vakti þó afbragðsvel skrifað Lesbókarrabb þess ágæta manns Eysteins Björnssonar fyrir nokkru er bar heitið: Menningar-nótt. Hann vekur verðuga athygli á ölæðinu, misþyrmingunum og sóðaskapnum sem hafi verið í himinhrópandi andstöðu við það sem til var stofnað.

Eysteinn ræðir svo um fylleríið á mannskapnum, feimnismál okkar og ræðir svo um eiturlyfjafárið svokallaða og gerir að sjálfsögðu út af fyrir sig ekki lítið úr þeirri vá, en víkur svo að því viðhorfi sem búið sé að hamra inn í fólk að hinn löglegi vímugjafi alkóhól sé tiltölulega saklaus miðað við hin skelfilegu eiturlyf. Svo vitnað sé orðrétt til Eysteins í þessu beinskeytta og raunsanna rabbi hans þá segir hann: "Því það vita náttúrulega allir sem nenna að hugsa heila hugsun til enda að alkóhólið er eitthvert sterkasta fíkniefni sem til er og veldur að minnsta kosti 99% af öllum þeim hörmungum sem fíkniefni valda í heiminum.

Eysteinn dregur ekkert úr ábyrgð okkar allra á málunum með sinnuleysi okkar og afneitun og kallar þó eðlilega til meiri ábyrgðar þeirra sem með völdin fara svo sem hér í Reykjavík.

Eysteinn mælir hér sannkölluð skynsemisorð og hafi hann fyrir heila þökk. Alltof oft þegar þessi mál eru rædd tvímenna tvískinnungur og hræsni á sömu dróginni, að ekki sé nú talað um hinn lúmska áróður svo víða sem oft gengur svo yfirgengilega á móti allri heilbrigðri hugsun, Já, ólíkt var flest með vinnu- og gleðiferð framhaldsskólanemanna áður-nefndu og menningarnóttinni miklu í Reykjavík og væri ekki ráð að bera saman fyrir þá sem ferð ráða.

Og verum þess minnug varðandi upphaf þessa greinarkorns að í staðinn fyrir "þrátt fyrir að áfengið var útlægt gjört átti aðeins að standa: Vegna þess að. Þar lá nefnilega öll skýringin, svo einfalt er nú það

Eftir Helga Seljan

Höfundur er formaður fjölmiðlanefndar IOGT.

Höf.: Helga Seljan