ÞEGAR ég segi orðið "ég" er ég ekki bara að meina mig sjálfa heldur mjög marga sem ekki geta heyrt hið talaða hljóð i sjónvarpi. Þessir mörgu eru heyrnarlausir og heyrnarskertir og telja um 10% þjóðarinnar. Í sem stystu máli langar mig til að segja ykkur frá afhverju ég og þessi 10% þjóðarinnar viljum textun.
- til að geta fylgst með þjóðmálaumræðunni i öllum aðal- og aukafréttatímum sjónvarpstöðvanna, í Kastljósinu, i Silfri Egils, í Ísland í Bítið, í Ísland í dag sem og öðrum þáttum þar sem þjóðmálaumræða líðandi stundar er til umræðu og sérstaklega það hverju þessar spennandi persónur hafi frá að segja á laugardagskvöldi með Gísla Marteini eða þá hvað allt þetta sjálfstæða fólk hefur að segja við Jón Ársæl í Sjálfstæðu fólki.
- Vita hvað er svona spennandi í Panorama, hjá Andreu, í Fólki hjá Sirrý, í Innlit/Útlit, í Femin, í Djúpu lauginni eða þá hvað unga fólkið hefur að segja í Atinu og sér í lagi hvernig þjóðmálin verða fyndin í Spaugstofunni.
- Vitað hvað menningu landans líður í Mosaik, jafnvel hverju vísindum miðar í Nýjasta tækni og vísindi.
- Vil vita hvað sporin heita í Fínu formi og út á hvað þau snúast og hvernig ég ætti að elda veislumat á mettíma í Einn, tveir og elda. Jafnvel ég vil fá að vita út á hvað Þorsteinn Joð fær keppendur til að rembast eins og rjúpan við staurinn að svara spurningum og vinna sér inn dágóðan aur eða þá hvaða spurninga hann Haukur í horni er að spyrja og enginn fær aur fyrir svörin sín þar.
- Til að geta vitað hvað ég að að gera þegar maður fær hjartaáfall fyrir framan mig, ég vil vita af hverju ég á að hnoða fyrst og hringja svo en ekki blása. Jafnvel það hvað er bakflæði og af hverju ég ætti frekar að drekka Coca Cola heldur en Pepsi eða öfugt, jafnvel hvort ég ætti að nota Ajax eða Mr.Proper. Já, sem sagt auglýsingar og kynningarmyndbönd hverskonar þurfa að vera textuð, það myndi jafnvel víkka markhópinn.
- Horfa á íþróttir með texta er hið besta mál. Allir íþróttaþættir hvers konar ættu að vera textaðir, beinar útsendingar er hægt að texta.
- Jafnvel mig langar til að geta horft á barnaefni allra sjónvarpsstöðvanna og geta tekið þátt í þeim hugarheimi og boðskap sem sjónvarpið færir börnum okkar. Allt barnaefni á að vera textað.
Svo einfalt er þetta, textun ætti að vera eitt af grunnskilyrðum í allri innlendri þáttagerð á sama hátt og hljóðið. Setjum textun til jafns við hið talaða orð.
Mætum á Textaþing i dag kl. 13 á Grand hótel, fræðumst um málefnið og veitum því brautargengi.
Eftir Sigurlínu Margréti Sigurðardóttur
Höfundur er táknmálskennari og í þrýstihópi fyrir textun á innlent sjónvarpsefni.