NIÐURSTÖÐUR liggja nú fyrir í póstkosningu Samfylkingarinnar um afstöðuna til Evrópusambandsins. Enda þótt þátttaka í kosningunni hafi aðeins verið um 35% og þannig kannski ekki farið fram úr björtustu vonum aðstandenda, verður vart annað sagt en niðurstaða hennar sé býsna skýr og því líklegt að þau 81,5% Samfylkingarfólks sem guldu jáyrði við spurningunni muni hafa mótandi áhrif á stefnu flokksins í Evrópumálum á næstu árum. Að því leytinu til, má vel færa rök fyrir því að niðurstaðan marki ákveðin tímamót.
Fjölmiðlar hafa sýnt málinu töluverðan áhuga og þegar eru hafnar bollaleggingar um raunverulega þýðingu kosningarinnar. Ákaflega hörð gagnrýni einstakra félagsmanna í Samfylkingunni í garð kosningarinnar, á framkvæmd hennar og málatilbúnaðinn allan hefur þó varpað nokkrum skugga á þann ljóma sem vitaskuld átti að stafa af þessum tímamótum og sýnir auðvitað, svo ekki verður um villst, að hvorki í Samfylkingunni né annars staðar eru markalínur í Evrópumálum skýrar eða ljósar.
Í kvöldfréttum Sjónvarpsins sl. sunnudag komust menn að þeirri niðurstöðu að stóra spurningin í ljósi niðurstaðna úr póstkosningu Samfylkingarinnar væri hvaða stefnu Framsóknarflokkurinn hyggist taka í þessum efnum.
Því er til að svara, að á undanförnum árum hefur Framsóknarflokkurinn fylgt ákveðinni og skýrri stefnu í Evrópumálum. Evrópunefnd Framsóknarflokksins, sem skilaði áliti sínu í janúar 2001 eftir mikla vinnu, komst þannig að orði í niðurstöðum sínum, að samskipti Íslendinga við Evrópusambandið byggist á EES-samningnum og stefna beri að því að samningurinn geti haldið upphaflegum markmiðum sínum og aðildarþjóðir haldið sínum hlut og réttindum andspænis Evrópusambandinu, þar á meðal sem fullgildir þátttakendur í samstarfi við nýjar stofnanir ESB og á nýjum sviðum sem sambandið tekur að sér. Enn fremur segir í niðurstöðum nefndarinnar: "Ef ekki reynist grundvöllur til að byggja á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þannig að hann fullnægi til frambúðar skilyrðum og markmiðum Íslendinga, skal ákvörðun tekin um það hvort óskað skuli viðræðna við Evrópusambandið um fulla aðild Íslendinga að því, m.a. á grundvelli þeirra skilmála og samningsmarkmiða sem Íslendingar setja sér, eða hvort leita skuli annarra valkosta."
Í niðurstöðunum er kveðið á um að ef til ákvörðunar um aðildarumsókn að ESB komi, skuli hún borin undir þjóðaratkvæði ásamt öðrum raunhæfum kostum sem til greina komi í Evrópusamvinnunni. Skili aðildarviðræður sameiginlegri niðurstöðu um að aðild Íslendinga að Evrópusambandinu skuli hún að nýju lögð undir þjóðaratkvæði áður en til skuldbindinga kemur, en verði aðildarsamningur felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða leiði aðildarviðræður ekki til sameiginlegrar niðurstöðu, skuli leitað viðræðna um tvíhliða samning við Evrópusambandið.
Á flokksþingi Framsóknarflokksins í fyrra var samþykkt að vinna áfram að málefnum Íslands í Evrópusamstarfinu í samræmi við niðurstöðu skýrslu Evrópunefndarinnar. Í samræmi við það hefur formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, beitt sér fyrir endurskoðun og uppfærslu EES-samningsins, samtímis því sem hann hefur haft forystu um opna og fordómalausa umræðu um sambandið - kosti þess og galla. Það er afskaplega mikilvægt að greina stöðu okkar í breyttri Evrópu, greina áhrif okkar í stækkuðu Evrópusambandi og fylgjast grannt með því hvort EES-samningurinn dugir okkur - einn og sér - til framtíðar.
Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því, að það er ekki á stefnuskrá Framsóknarflokksins að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Að óbreyttu virðist aðild raunar óhugsandi, ekki síst sakir hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins. Hins vegar ber okkur um leið að greina alla möguleika og öll teikn um breytingar sem gerast samfara hinni hröðu þróun og það höfum við gert. Í því samhengi ber að skoða athyglisverðar hugmyndir utanríkisráðherra um breytingar á sjávarútvegsstefnunni, m.a. um að stjórnun fiskveiða úr staðbundnum stofnum innan fiskveiðilögsögu strandríkja verði á hendi stjórnvalda í viðkomandi ríkjum og að unnt verði að finna lausn á þessum málum, sem viðunandi yrði fyrir okkur Íslendinga, yrði pólitískur vilji fyrir hendi. Vísbendingar eru uppi um að í þessum efnum yrði hlustað á rödd og röksemdir Íslendinga.
Svo er að sjá að umræðan um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu sé á góðri leið með að skipa landsmönnum í tvær hugmyndafræðilega andstæðar fylkingar. Afstaða fólks til ESB klýfur alla flokka og sýnist ekki bundin búsetu eða starfsstéttum. Þó virðast þeir yngri jákvæðari í garð sambandsins en hinir eldri, ef marka má skoðanakannanir.
Það eru deilur um Evrópusambandið í öllum flokkum og fjölmennasta sveitin, sem er fylgjandi beinni aðild er sennilega í Sjálfstæðisflokknum - eins og hver annar hulduher. Framsóknarmenn vilja á hinn bóginn hafa þessa umræðu á dagskrá síns flokks og sinnar framtíðar og hræðast hana ekki. Vitaskuld er málið umdeilt og það er enginn að tala um að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu hér og nú. Ef aðild gengur gegn hagsmunum okkar ber okkur vitaskuld að forðast hana með öllum ráðum. Felist hagsmunir okkar hins vegar í því að vera innan sambandsins eigum við að sækja um.
Einmitt af þessum sökum er það skylda okkar að standa áfram fyrir upplýstri umræðu, draga fram staðreyndir byggðar á þekkingu um kosti aðildar og galla, svo að á endanum megi taka vel ígrundaða og skynsamlega ákvörðun.
Eftir Björn Inga Hrafnsson
Höfundur er kynningarfulltrúi Framsóknarflokksins.