HÆTTA er á, að næstum helmingur allra plöntutegunda verði aldauða en hingað til hefur verið talið, að það ætti aðeins við um áttundu hverja tegund.

HÆTTA er á, að næstum helmingur allra plöntutegunda verði aldauða en hingað til hefur verið talið, að það ætti aðeins við um áttundu hverja tegund. Kemur þetta fram í nýrri rannsókn bandarískra grasafræðinga en niðurstöður hennar voru kynntar í vísindatímaritinu Science. Segja þeir, að við fyrra mat hafi ekki verið tekið tillit til margra tegunda í hitabeltinu en þar er tegundafjöldinn mestur. Mesta hættan steðjar að plöntum, sem búa við sérstök skilyrði á tiltölulega afmörkuðum landsvæðum.

Leyniskyttur tengdar fleiri morðum

ÞEIR John Allen Muhammad og John Lee Malvo, leyniskytturnar svokölluðu, eru nú grunaðir um að hafa myrt konu, Hong Ballenger, í Louisiana 23. september sl., það er að segja viku áður en morðin hófust á Washington-svæðinu. Var Ballenger skotin til bana er hún lokaði snyrtivöruverslun, sem hún rak, og um 1.000 dollurum rænt af henni. Rannsóknir sýna, að notaður var sami riffillinn og fannst í bifreið morðingjanna. Þegar eiginmaður Ballenger sá mynd af Malvo fannst honum hann vera líkur morðingjanum og hafði samband við lögregluna. Var honum þá sagt, að þetta gæti ekki verið vegna þess, að ránið passaði ekki við atferli morðingjanna. Þó var hugað betur að og þá kom í ljós, að sama vopnið hafði verið notað. Er nú verið að kanna hvort þeir Muhammad og Malvo hafi enn fleiri morð á samviskunni.

Bryti Díönu laus allra mála

ÁKÆRUR á Paul Burrell, bryta Díönu heitinnar prinsessu, hafa verið felldar niður en hann hafði verið sakaður um að stela hundruðum persónulegra muna í hennar eigu. Elísabet drottning hefur skýrt frá því, að Burrell hafi sagt sér, að hann hefði mikið af munum frá Díönu í sinni vörslu. Hefði hann þá undir höndum í því skyni að varðveita minningu hennar. Var Burrell að sjálfsögðu létt þegar málinu var vísað frá og kvaðst innilega þakklátur drottningu.