KIM Hong-Up, einn sona Kim Dae-Jungs, forseta Suður-Kóreu, var dæmdur í gær í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir spillingu. Var hann fundinn sekur um að hafa þegið stórfé í mútur og um skattsvik.
Hong-Up, sem er rúmlega fimmtugur, var handtekinn í júní sl. og sakaður um að hafa tekið við um 190 millj. kr. frá ýmsum fyrirtækjum, meðal annars Hyundai og Samsung, undir því yfirskini, að um pólitísk framlög væri að ræða. Viðurkenndi hann að hafa þegið féð en hélt því fram, að ekki hefði verið ætlast til neins endurgjalds.
Annar sona forsetans, Kim Hong-Gul, er líka í fangelsi fyrir spillingu og skattsvik og er dóms að vænta yfir honum eftir viku. Eru þesssi hneykslismál mikið áfall fyrir föður þeirra, Kim Dae-Jung forseta, en hann þykir hafa staðið sig vel í embætti og var kjörinn 1998 vegna fyrirheita um einarða baráttu gegn spillingu í landinu.
Seoul. AFP.