TÉTSENSKI stríðsherrann Shamil Basajev lýsti sig í gær ábyrgan fyrir gíslatökunni í Moskvu í síðustu viku og sagði að Aslan Maskhadov, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Tétsníu, hefði ekki átt aðild að aðgerðinni.

TÉTSENSKI stríðsherrann Shamil Basajev lýsti sig í gær ábyrgan fyrir gíslatökunni í Moskvu í síðustu viku og sagði að Aslan Maskhadov, leiðtogi aðskilnaðarsinna í Tétsníu, hefði ekki átt aðild að aðgerðinni. Í yfirlýsingu á vefsíðu sinni bað Basajev Maskhadov "og vopnabræður mína fyrirgefningar á því að ég skuli ekki hafa greint þeim frá áætlunum mínum og framkvæmd þessarar aðgerðar".

Yfirlýsing Basajevs kemur eftir að Rússar sökuðu Maskhadov um að hafa átt þátt í skipulagningu gíslatökunnar. Birtist hún á vefsíðu tétsensku skæruliðanna og þar sagði einnig, að Basajev hefði sagt sig úr stjórn Maskhadovs.

Rússneska stjórnin fór í gær fram á það við Bandaríkjastjórn, að hún bætti hreyfingunni, sem Basajev stýrir, á lista yfir hryðjuverkasamtök en hún hefur áður krafist þess sama gagnvart öðrum skæruliðahreyfingum í Tétsníu. Segjast Bandaríkjamenn vera að íhuga þessar óskir.

Moskvu. AFP.

Höf.: Moskvu. AFP