FYRSTU dagarnir í nóvember hafa um aldir verið tileinkaðir öllum heilögum, píslarvottum trúarinnar, og öllum sálum, þeim sem látist hafa á liðnu ári. Á sunnudaginn, 3. nóvember, verða messur víða helgaðar þessu umfjöllunarefni.

FYRSTU dagarnir í nóvember hafa um aldir verið tileinkaðir öllum heilögum, píslarvottum trúarinnar, og öllum sálum, þeim sem látist hafa á liðnu ári. Á sunnudaginn, 3. nóvember, verða messur víða helgaðar þessu umfjöllunarefni.

Í Fossvogskirkju verður vönduð tónlistardagskrá frá kl. 14-17. Þar gefst fólki kostur á að koma og hlýða á tónlistarflutning, ritningarlestur og bæn og njóta kyrrðar kirkjunnar. Fyrst flytur mgr. Pavel Manásek, organisti, einleik á orgel, og þar næst leikur tónlistartvíeykið Gunnar Gunnarsson og Sigurður Flosason á orgel og saxafón. Þá flytja söng sinn Hljómkórinn og félagar úr kór Bústaðakirkju, ásamt organistanum Jónasi Þóri Þórissyni. Prestarnir sr. Hreinn Hákonarson og sr. María Ágústsdóttir fara með bæn og ritningarorð.

Skrifstofa Kirkjugarðanna verður opin frá kl. 14-17, starfsfólk vísar veg í görðunum og Hjálparstarf kirkjunnar selur friðarkerti, bæði í Fossvogskirkjugarði og í Gufunesi.

Verið velkomin í Fossvogskirkju á sunnudaginn.

110 ára afmæli Innra-Hólmskirkju

110 ára afmælis Innra-Hólmskirkju í Borgarfjarðarprófastsdæmi verður minnst með messu svo og kaffiveitingum og stuttri dagskrá í félagsheimilinu Miðgarði á sunnudaginn kemur, sem er allra heilagra messa.

Messan hefst kl. 14.00 og mun sr. Örn Bárður Jónsson, prestur í Neskirkju prédika, en altarisþjónusta verður í höndum sóknarprestsins, sr. Kristins Jens Sigurþórssonar.

Að messu lokinni verða kaffiveitingar í boði sóknarinnar í Miðgarði þar sem kirkjukór Saurbæjarprestakalls undir stjórn organistans Zsuszönnu Budai mun flytja nokkur lög og stutt ágrip verður flutt um kirkjustaðinn Innra-Hólm, en þar hefur kirkja staðið frá því um 900 og er hann því einn elsti kirkjustaður landsins.

Allir hjartanlega velkomnir.

Látinna minnst í Hjallakirkju

ALLRA heilagra messa í kirkjum landsins sunnudaginn 3. nóvember.

Í Hjallakirkju hefst dagurinn með tónlistarmessu kl. 11 þar sem Kór Hjallakirkju flytur m.a. messu í C-dúr eftir Mozart ásamt einsöngvurum.

Síðari hluta dagsins, kl. 17, verða minningartónleikar en þá mun kammerkórinn Vox Gaudiae frumflytja á Íslandi, ásamt einsöngvurum og hljóðfæraleikurum, Requiem eftir Johann E. Eberlin, Laudate Dominum eftir Mozart, Allsherjar Drottinn eftir César Franck og fleiri kórverk. Aðgangur á tónleikana er ókeypis.

Verið velkomin í Hjallakirkju á allra heilagra messu.

Allra heilagra messa - minning látinna

Minning látinna verður heiðruð með sérstökum hætti við messu í Landakirkju sunnudaginn 3. nóvember kl. 14.

Þá er "allra heilagra messa" að gömlum sið en hann hefur fengið þann sess að við minnumst allra þeirra, sem andast hafa. Prestur les nöfn þeirra, sem andast hafa síðustu tólf mánuði og færðir hafa verið til þjónustubókar Vestmannaeyjaprestakalls. Sr. Kristján tekur við ábendingum um aðra, sem hafa verið jarðsettir annars staðar en í Eyjum, en fólk vill minnast með þessum hætti. Ástvinir geta tendrað ljós á kerti í kirkjunni til minningar um látinn ástvin, hvort sem nöfn þeirra hafa verið lesin upp eða ekki. Altarisganga verður í messunni og fermingarbörn lesa upp úr Ritningunni. Yfirskrift messunnar er "Sælir eru sorgbitnir". Kaffispopi og spjall á eftir í safnaðarheimilinu.

Athygli skal vakin á því að þriðjudagskvöldið 5. nóvember verður fundur um sorg og viðbrögð við missi í safnaðarheimilinu og hefst hann kl. 20. Sóknarprestur flytur stutt erindi um sorgarviðbrögð og stýrir spjalli á eftir.

Kaffihúsamessa í safnaðarheimilinu

Kaffihúsamessa verður í safnaðarheimili Landakirkju sunnudagskvöldið 3. nóvember. Félagar úr Samkór Vestmannaeyja sjá um söng og tónlist með hópi hljóðfæraleikara. Æskulýðsleiðtogar lesa úr Ritningunni. Sr. Kristján Björnsson þjónar og leggur út af guðspjalli dagsins, sem eru sæluboð Fjallræðunnar. Yfirskriftin er: "Sælir eru hjartahreinir". Kaffisopi og djús fyrir og eftir og undir söng. Ljúf stund og sæl. Foreldrar eru hvattir til að fylgja börnum og unglingum og eiga góða stund í húsi Guðs. Æskulýðsfundurinn rennur inní kaffihúsamessuna.

Allraheilagra messa í Grafarvogskirkju

Á allra heilagra messu nk. sunnudag verður haldin hátíðarguðsþjónusta í Grafarvogskirkju.

Eins og undanfarin ár bíður Grafarvogssöfnuður sérstaklega þeim sem minnst hafa ástvini sína á árinu til guðsþjónustu. Þann dag er þeirra sem á undan oss eru farnir sérstaklega minnst. Séra Vigfús Þór Árnason prédikar og þjónar fyrir altari ásamt séra Önnu Sigríði Pálsdóttur og séra Bjarna Þór Bjarnasyni. Kór Grafarvogskirkju, Barna- og unglingakór kirkjunnar syngja. Stjórnandi Oddný Þorsteinsdóttir. Organisti Hörður Bragason.

Eftir guðsþjónustuna verður svo nefnt "líknarkaffi" en framlög renna í Líknarsjóð Grafarvogskirkju.

Prestar Grafarvogskirkju.

Alda Ingibergsdóttir í Hafnarfjarðarkirkju

FRÁ fornu fari hefur það verið hefð í kirkjunni að helga 1. nóvember öllum heilögum körlum og konum, öllum sem á einhvern hátt hafa látið gott af sér leiða í lífi sínu og starfi. Hefur dagurinn því verið nefndur "allra heilagra messa".

Í frumkirkjunni var þessi hátíð helguð píslarvottum kirkjunnar. Önnur hátíð tengdist þessum degi á miðöldum, "allra sálna messa", sem var sunnudaginn eftir allra heilagra messu. Er þá minnst látinna ættingja og vina.

Messa sunnudagsins, allra sálna messu, verður í Hafnarfjarðarkirkju helguð þessum tveimur fornu hátíðum. Þema hennar er því "Hin kristna von". Af því tilefni syngur Alda Ingibergsdóttir einsöng en hún er Hafnfirðingum að góðu kunn fyrir frábæran söng sinn. Einnig mun hún syngja með kór kirkjunnar undir stjórn Antoniu Hevesi.

Börn verða borin til skírnar í messunni og eftir altarisgöngu geta allir kirkjugestir tendrað bænaljós á bænastjaka kirkjunnar, í minningu látinna vina og ættingja.

Messan hefst kl. 11. Prestur er sr. Þórhallur Heimisson.

Allra heilagra messa í Fella- og Hólakirkju

SUNNUDAGINN 3. nóvember verður látinna minnst í allra heilagra messu í Fella- og Hólakirkju kl. 11. Í upphafi messunnar gefst kirkjugestum kostur á að tendra bænaljós og leggja á kross til hliðar við altarið til minningar um látinn ástvin.

Sérstaklega verður blessuð minning þeirra sem látist hafa síðastliðið ár og eru þeir sem vilja láta lesa nöfn látinna ástvina bent á að koma nöfnum þeirra til kirkjunnar eða í síma 5573280.

Sr. Guðmundur Karl Ágústsson predikar og þjónar í messunni. Þorvaldur Halldórsson sér um tónlistina ásamt kór Fella- og Hólakirkju.

Fella- og Hólakirkja.

KK og Ellen syngja í Árbæjarkirkju

Í annarri Léttmessu vetrarins, sem fram fer í Árbæjarkirkju sunnudaginn 3. nóvember kl. 20, koma systkinin Ellen Kristjánsdóttir og Kristján Kristjánsson og leiða sönginn.

Í kirkjuárinu nefnist fyrsti sunnudagurinn í nóvember allra heilagra messa og er notaður til að minnast sérstaklega þeirra sem fallnir eru frá og munu kirkjugestir geta kveikt á kertum og lagt þau á steinkross í minningu ástvina. Lagavalið tekur einnig mið af kirkjuárinu og munu systkinin syngja lögin: "When I think of angel" og "Englar himins grétu í dag" sem samin voru í minningu látinna, KK mun einnig flytja lögin "Úrskeiðis í Paradís og ,,Guðs náð" af glænýrri plötu sinni ásamt fleiri lögum.

Hugleiðingin verður í höndum sr. Óskars Inga Ingasonar sem einnig þjónar til altaris og eldri félagar í æskulýðsfélaginu flytja bænir.

Eftir messu verður boðið upp á kaffi og konfekt í safnaðarheimilinu og félagar úr æskulýðsfélaginu verða með basar til styrktar utanlandsferð félagsins.

Ekki vanrækja andlegu hliðina, láttu sjá þig í léttmessu.

Árbæjarkirkja.

Allra sálna messa í Dómkirkjunni

SUNNUDAGINN 3. nóvember verður messan kl. 11 helguð minningu látinna.

Við höfum fyrir því langa hefð að minnast sérstaklega þeirra sem við okkur hafa skilist um genginn árshring sem og allra þeirra sem við söknum. Þá gefst fólki tækifæri til að tendra ljós í minningu þeirra.

Sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson mun prédika og þjóna fyrir altari ásamt sr. Hjálmari Jónssyni. Dómkórinn mun syngja undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar.

Á eftir verður svo samvera í safnaðarheimilinu með léttum veitingum. Þar mun sr. Hjálmar í erindi leiða í ljós hvernig sálmar lýsa og túlka sorgarviðbrögðin um leið og þeir vísa veginn áfram að sáttinni við lífið og Guð sem gefur það og tekur.

Léttmessa í Dómkirkjunni

MESSAÐ verður í Dómkirkjunni á sunnudagskvöldið. Öðrum þræði er kvöldmessan leit og viðleitni til þess að finna farveg helgihalds sem fleiri og fleiri geti nýtt fyrir líf sitt og aðstæður. Æðruleysismessurnar, sem nú hafa átt sér stað í Dómkirkjunni í rúm fjögur ár, hafa mælst vel fyrir og verið fjölsóttar. Þessar byggja á sömu nálægð, ljúfum og innilegum trúarsöngvum og léttleika í boðun fagnaðarerindisins.

Á sunnudagskvöldið predikar sr. Hjálmar Jónsson og þjónar fyrir altari ásamt sr. Jakob Á. Hjálmarssyni. Einnig þjónar Hans Guðberg Alfreðsson. Bræðrabandið, Hörður og Birgir Bragasynir, sér um undirleikinn og Anna Sigríður Helgadóttir stýrir söngnum. Verið velkomin.

Þrenna í Neskirkju á sunnudag

ALFA III kl. 10. Séra Örn Bárður heldur áfram fræðslu um Fjallræðuna.

Allra heilagra messa kl. 11. Minnst látinna. Séra Örn Bárður Jónsson prédikar. Kór Neskirkju leiðir söng. Inga J. Backman syngur einsöng. Organisti Steingrímur Þórhallsson. Ræðuefni á kosningavetri:

Stefnuskrá Krists. Barnastarf í tveimur hópum, 8-9 ára og yngri börn kl. 11. Börnin eru með fullorðnum fyrri hluta messunnar en njóta svo sérstakrar fræðslu í safnaðarheimili kirkjunnar. Kaffisopi eftir messu.

Kvöldmessa kl. 20. Þorvaldur Halldórsson leiðir lofgjörð á léttum nótum. Séra Örn Bárður Jónsson prédikar og leiðir fyrirbænir. Séra Frank M. Halldórsson og séra Toshiki Toma útdeila sakramenti.

Kaffisopi eftir messu.

Húnversk messa

EINS og undanfarin ár verður guðsþjónusta í Kópavogskirkju á vegum Húnvetningafélagsins fyrsta sunnudag í nóvember og hefst hún kl. 14.

Brynleifur Steingrímsson læknir flytur stólræðu og séra Ægir Fr. Sigurgeirsson þjónar fyrir altari. Húnvetningar lesa ritningarlestra og flytja upphafs- og lokabæn. Húnakórinn syngur undir stjórn Eiríks Grímssonar og orgelleik annast Árni Arinbjarnarson.

Að lokinni guðsþjónustu verður kaffi og samvera í Húnabúð, Skeifunni 11.

Sr. Ægir Fr. Sigurgeirsson.

Kvöldvaka í Fríkirkjunni í Hafnarfirði

KVÖLDVAKA verður í Fríkirkjunni í Hafnarfirði annað kvöld, sunnudagskvöldið 3. nóvember, kl. 20, en slíkar kvöldvökur eru haldnar í kirkjunni einu sinni í mánuði.

Það er að venju Örn Arnarson og hljómsveit hans sem leiða tónlist og söng ásamt félögum úr kór Fríkirkjunnar. Sérstakur gestur kvöldvökunnar er að þessu sinni sr. Jóna Hrönn Bolladóttir. Sr. Jóna Hrönn starfar sem miðbæjarprestur í Reykjavík og hefur getið sér gott orð á þeim vettvangi. Hún er kunn fyrir líflega og skemmtilega framkomu og hispursleysi í tali. Það er því tilhlökkunarefni að fá hana í heimsókn.

Á kvöldvökunni gefst fólki kostur á að tendra bænakerti í minningu látinna ástvina, en á morgun er einmitt allra sálna messa. Að lokinni kvöldvöku verður svo kaffi í safnaðarheimilinu.

50 ára prestsþjónusta í Langholtskirkju

HÁTÍÐARMESSA verður í Langholtskirkju sunnudaginn 3. nóvember kl. 11.

Þess verður sérstaklega minnst að 1. nóvember fyrir 50 árum tók sr. Árelíus Níelsson við embætti sem fyrsti prestur Langholtssafnaðar. Af þessu tilefni predikar sr. Sigurður Haukur Guðjónsson, fyrrv. sóknarprestur. Kammerkór Langholtskirkju syngur undir stjórn Jóns Stefánssonar.

Á allra heilagra messu er látinna minnst með sérstökum hætti. Tekið verður við framlögum í minningarsjóð Guðlaugar Bjargar Pálsdóttur, en sjóðurinn greiðir tónlistarflutning við messuna þennan dag ásamt því að styrkja efnilega söngnemendur. Guðlaug Björg var um árabil félagi í Kór Langholtskirkju.

Trúin á Netinu

NETIÐ teygir anga sína inn á mörg svið daglegs lífs og er þegar orðinn einn helsti samskiptavettvangur margra. Um fjórðungur þeirra sem vafra um veraldarvefinn hafa sótt sér trúarlegt efni. En hvað með trúariðkunina sjálfa, er hægt að iðka trú sína á Netinu? Og þá hvernig? Árni Svanur Daníelsson guðfræðingur og vefstjóri kirkjan.is ræðir um trúna og Netið í ljósi kristins mannskilnings á fræðslumorgni í Hallgrímskirkju, sunnudaginn 3. nóvember kl. 10.

Guðsþjónusta á allra heilagra messu hefst síðan kl. 11 og er hún í umsjá séra Sigurðar Pálssonar.

Kvöldmessa við kertaljós í Hallgrímskirkju

Sunnudagskvöldið 3. nóvember á allra heilagra messu verður kvöldmessa í Hallgrímskirkju. Kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, syngur nokkur kórverk og leiðir safnaðarsöng undir stjórn Harðar Áskelssonar, kantors. Hafsteinn Þórólfsson syngur einsöng. Prestarnir sr. María Ágústsdóttir og sr. Jón Dalbú Hróbjartsson annast prestsþjónustuna. Söfnuðinum verður gefinn kostur á að tendra bænaljós í minningu látinna ástvina eða vegna annarra áfalla í fjölskyldum svo og vegna þakkargjörðar. Form messunnar er einfalt og mjög aðgengilegt fyrir alla. Lögð er áhersla á kyrrð, íhugun, söng og vandaðan tónlistarflutning.

Kaffisala, basar og happdrætti í Landakoti

KVENFÉLAG Kristskirkju í Landakoti heldur árlega kaffisölu sína, basar og happdrætti í safnaðarheimili kaþólskra, Hávallagötu 16, Landakoti, nk. sunnudag kl. 15. Þar verður um margt góðra muna að velja og engin núll.

Kvenfélag Kristskirkju.