Tveir húmoristar, hvor úr sinni áttinni: Dr. Sten Tyrdal skurðlæknir og Karl Ágúst Úlfsson leikari.
Tveir húmoristar, hvor úr sinni áttinni: Dr. Sten Tyrdal skurðlæknir og Karl Ágúst Úlfsson leikari.
"BRANDARAR eiga ekki upp á pallborðið í samskiptum læknis og sjúklings," segir norski skurðlæknirinn Sten Tyrdal sem flutti erindi á námskeiðinu Húmor og heilsa hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í gær.

"BRANDARAR eiga ekki upp á pallborðið í samskiptum læknis og sjúklings," segir norski skurðlæknirinn Sten Tyrdal sem flutti erindi á námskeiðinu Húmor og heilsa hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í gær. Tyrdal er forseti Norræns félags um læknaskop og segir kersknina einkum hafa það hlutverk að draga úr streitu sjúklings en ekki megi skilja hlutina á þann hátt að verið sé að reyta af sér læknabrandara frá morgni til kvölds.

"Í mínum huga er kersknin ákveðin samskiptaleið og fær sjúklinginn til að slaka á," segir Tyrdal. "Auk þess skapast traust þegar ég birtist sjúklingi sem persóna en ekki aðeins læknir."

Tyrdal segir bros og vinsemd mikilvæga þætti þegar kerskni beri á góma í samskiptum læknis og sjúklings. Hann beiti henni að sjálfsögðu í samskiptum við eigin sjúklinga.

Karl Ágúst Úlfsson var fenginn til að ræða um kerskni á námskeiðinu og sagði við Morgunblaðið að hún væri einfaldlega lífsnauðsynleg fyrir heilsuna. Varla þarf að geta þess að margítrekað bætti hann heilsu þeirra sem námskeiðið sátu með því að koma þeim til að hlæja. "Hláturinn er hollur fyrir öll efnaskipti, lungu og hjarta. Létt afstaðan til lífsins auðveldar fólki lífið, auk þess sem húmorinn léttir samskipti fólks og léttir lífið á svo fjölmörgum sviðum," segir Karl Ágúst.