FÁTÆKT fólk er líklegra til þess að vera flogaveikt, samkvæmt nýjum rannsóknum breskra vísindamanna. Þeir sem tilheyra hinum verst settu í samfélaginu eru tvisvar sinnum líklegri til þess að vera flogaveikir en þeir sem eru meðal hinna best settu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Skýringarnar kunna að vera ýmsar, að mati vísindamanna frá Bresku taugafræðistofnuninni. Það var til að mynda vitað að flogaveikt fólk er líklegra til að vera fátækt vegna þess að það getur ekki sinnt vinnu. Þetta er hins vegar fyrsta rannsóknin sem sýnir fram á að fátækt getur beinlínis verið orsök flogaveiki. Áhættuþættir flogaveiki, eins og fæðingagallar og næringarskortur, eru t.d. algengari meðal fátækra. Gen sem bera flogaveiki gætu einnig ákvarðað námsgetu og aðra þætti heilbrigðis, segja vísindamennirnir.
Prófessor Ley Sander, sem stýrði rannsókninni, sagði að skýringarnar á þessum tengslum fátæktar og flogaveiki væru sennilega fleiri en ein og væntanlega samtengdar. "Ef þú ert fátækur muntu leita þér lækninga seinna en ella," bætti hann við.Talsmenn flogaveikra í Bretlandi sögðust vilja sjá niðurstöður frekari rannsókna áður en þeir drægju einhverjar ályktanir af þessu.