Fiskimiðin eru hvort sem er ekki í eigu nema fárra og æ færri útvaldra. Íslenskur almenningur hefur ekkert um þau að segja og hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja kemur honum lítið við.

Málefni neytenda og launafólks hafa verið mikið í umræðunni undanfarið, ekki síst hátt verð á matvöru hér á landi miðað við önnur lönd í Evrópu. Í Efta-löndunum sem standa utan ESB, Noregi og Íslandi, er matvara dýrust af Evrópulöndum. Bæði Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin hafa á dagskrá sinni að meta hvort aðild að ESB kæmi neytendum og launafólki á Íslandi til góða.

Hagsmunir hins almenna launamanns eru þegar allt kemur til alls mikilvægastir þegar meta á kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Fiskimiðin eru auðvitað mikilvæg líka en almenningur hefur ekki þau tengsl við sjávarútveginn sem áður voru. Fiskimiðin eru hvort sem er ekki í eigu nema fárra og æ færri útvaldra. Íslenskur almenningur hefur ekkert um þau að segja og hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja kemur honum lítið við. Ekki svo að skilja að Brussel myndi gleypa fiskimiðin okkar, ef Ísland gerðist aðili að ESB, eins og sumir láta þó í veðri vaka.

Áðurnefnd hagsmunasamtök, sem og Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins, hafa haft Evrópumálin á dagskrá hjá sér lengur en þau hafa verið á dagskrá í íslenskri pólitík. Einungis nýlega var viðurkennt að málið væri jú á dagskrá íslenskra stjórnmála og það ætti auðvitað að ræða það. Eins gott að þessi samtök hafa verið að kanna allar hliðar Evrópumálanna og halda því áfram. Þau eru sammála um að aðild Íslands að EES-samningnum árið 1994 hafi verið framfara- og gæfuspor og a.m.k. Samtök iðnaðarins hafa þá stefnu að Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur SI, hefur t.d. skrifað ófáar greinar um evruna og bent á að tilvist krónunnar leiði til þess að samkeppni á Íslandi hafi tilhneigingu til að vera minni en ef evran yrði tekin upp á Íslandi. "Þetta er vegna þess að verðlag verður gegnsærra með sameiginlegri mynt. Rétt er að líta á litla og sveiflukennda mynt sem viðskiptahindrun. Í skjóli hennar fær fákeppni þrifist. Með evru má búast við meiri samkeppni á öllum mörkuðum. Vissulega er til staðar flutningskostnaður, sem leiðir af sér eitthvað hærra verðlag á Íslandi en á meginlandi Evrópu. En sá aukakostnaður útskýrir ekki allan þennan mun frekar en í Noregi eða Sviss. Þessar upplýsingar styðja þá ályktun að upptaka evrunnar komi til með að lækka kostnað vöru og þjónustu á Íslandi," segir m.a. í einni grein Þorsteins.

Ársfundur ASÍ var haldinn í gær og í fyrradag. ASÍ vill draga lærdóm af Evrópu og taka virkan þátt í Evrópusamvinnunni, að því er fram kemur í tillögu sem lá fyrir fundinum, en ASÍ hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort sækja beri um aðild að ESB. Íslenskt launafólk á að njóta ávinningsins af sameiginlegri baráttu evrópskrar verkalýðshreyfingar. ASÍ vill vinna að því að verðlag á lífsnauðsynjum verði sambærilegt við það sem annars staðar gerist í Evrópu. Þegar Evrópumálin eru skoðuð út frá hagsmunum launafólks er ljóst að þróun Evrópusamvinnunnar kallar á endurmat á stöðu EES-samningsins og hvert skuli stefna, segir ASÍ, sem ætlar að leggja mat á kosti þess og galla hvort hagstæðara sé að þróa EES-samninginn frekar eða sækja um aðild að ESB.

Neytendasamtökin samþykktu á þingi sínu í september að stjórn samtakanna myndi gangast fyrir ítarlegri athugun og umræðu um gildi aðildar að Evrópusambandinu fyrir íslenska neytendur því margt bendi til að það gæti þjónað hagsmunum íslenskra neytenda að Ísland gangi í Evrópusambandið. En samkvæmt niðurstöðum norsku hagstofunnar var matvælaverð hér á landi árið 2000 69% hærra en meðaltalsverð ríkja ESB. Því gæti aðild Íslands að ESB hugsanlega breytt. Það er a.m.k. ástæða til að athuga það. Og þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um athugun á orsökum hás matvælaverðs á Íslandi í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og ríki ESB.

Það sætir vissulega tíðindum þegar stjórnmálaflokkur sem hefur u.þ.b. 25% fylgi setur Evrópusambandsaðild á stefnuskrá sína. Enginn annar stjórnmálaflokkur hefur gert það og ekki fyrirsjáanlegt að það gerist í nánustu framtíð. Halldór Ásgrímsson fær tæpast Guðna Ágústsson í lið með sér í Evrópumálum á næstunni. Ekki heldur er útlit fyrir að þeir mörgu sjálfstæðismenn sem eru hlynntir Evrópusambandsaðild fái Davíð Oddsson á sitt band.

En þá liggur það loksins fyrir, Samfylkingin er hlynnt Evrópusambandsaðild. Samkvæmt póstkosningunni eru 81,5% félagsmanna hlynnt því að það eigi að vera stefna Samfylkingarinnar að samningsmarkmið Íslands gagnvart Evrópusambandinu verði skilgreind, að farið verði fram á viðræður og niðurstöður þeirra viðræðna síðan lagðar fyrir þjóðina.

Mig grunar að ef viðlíka póstkosning færi fram innan Sjálfstæðisflokksins kæmi í ljós að sá flokkur er hlynntur aðild Íslands að ESB. En á það mega andstæðingar ESB innan þess flokks ekki heyra minnst. Þar er keppst við að gera grín að póstkosningu og kalla hana eitthvað annað en lýðræði.

Ísland á að verða hluti af "Sameinaðri Evrópu". Við erum þegar 80% aðilar að ESB, hví ekki að taka skrefið til fulls?

Eftir Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is

Höf.: Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is