ÞEIR sem sóttu trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambands Íslands, RSÍ, í síðustu viku skora á ríkisstjórnina að efna sinn hluta samkomulags sem gert var við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir til að koma í veg fyrir að þensla í efnahagslífinu færi úr...

ÞEIR sem sóttu trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambands Íslands, RSÍ, í síðustu viku skora á ríkisstjórnina að efna sinn hluta samkomulags sem gert var við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir til að koma í veg fyrir að þensla í efnahagslífinu færi úr böndunum fyrir 1. febrúar nk.

Í ályktun sem Morgunblaðinu barst frá ráðstefnu RSÍ segir að forsætisráðherra hafi lagt fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar yfirlýsingu um hver yrði hennar þáttur. "Á þeim forsendum féllst verkalýðshreyfingin á að fresta viðmiðunardagsetningu svo svigrúm væri til að ná markmiðum kjarasamninga," segir í ályktuninni.

Þar segir að nú séu tíu mánuðir liðnir frá undirritun yfirlýsingar ráðherra "og þrátt fyrir fjölda funda ASÍ með embættismönnum og ráðherrum er málið enn óleyst. Fjármálaráðherra telur að um sé að ræða kostnaðarauka sem ekki verði vippað fram úr erminni, svo vitnað sé til hans eigin orða. Það var forsenda samkomulagsins að jafnað yrði það misrétti að félagsmenn í tilteknum stéttarfélögum njóti mun betri lífeyrisréttinda en þeir sem kjósa að vista sig í stéttarfélögum innan ASÍ". Í ályktuninni frá trúnaðarmannaráðstefnunni er fjármálaráðherra bent á að dæmi séu um að stjórnvöld hafi gengið frá breytingum á kjarasamningum á miðjum samningstíma og oft hafi verið um að ræða mun meiri kostnaðarauka.

"Aðilar vinnumarkaðar hafa staðið við sinn hluta samkomulagsins. Því verður ekki trúað að ráðherra í ríkisstjórn Íslands undirriti yfirlýsingu gagnvart heildarsamtökum á vinnumarkaði og telji síðan að hann beri ekki frekari ábyrgð á niðurstöðu málsins."