[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Nýleg könnun sýnir að verulega skortir á þekkingu Íslendinga á þessu krabbameini."

Krabbamein í ristli er alvarlegur sjúkdómur og veldur miklu heilsutjóni. Hér á Íslandi deyja á hverju ári 40-50 einstaklingar af völdum ristilkrabbameins sem er þriðja algengasta krabbameinið meðal Íslendinga og önnur algengasta dánarorsökin. Nýgengi (fjöldi greindra tilvika á ári) fer vaxandi en nú greinast 110-120 einstaklingar, konur og karlar, með sjúkdóminn árlega. Þrátt fyrir vaxandi nýgengi hafa horfur batnað nokkuð, því geta um 50% þeirra sem fá sjúkdóminn vænst þess að lifa í fimm ár eða lengur. Nú eru um 710 einstaklingar á lífi, sem hafa fengið þetta krabbamein. Því hefur verið spáð að tilvikum muni fjölga hér á landi um 20% til áranna 2008-2012.

Fordómar og fáfræði

Meðal íbúa hins vestræna heims fer tíðni ristilkrabbameins vaxandi og víða er þetta þriðja algengasta krabbameinið og önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameins eins og hér. Þrátt fyrir nýja tækni til að greina sjúkdóminn á öllum stigum, betri skurðtækni og framfarir á sviði lyfja- og geislameðferðar hefur baráttan við þennan sjúkdóm verið erfið og horfur sjúklinga batnað minna en búast mætti við. Ristilkrabbamein hefur ekki verið mikið í umræðunni almennt um heilbrigðismál þrátt fyrir að ferli sjúkdómsins, fyrstu einkenni hans og áhættuþættir hafi verið ljósir í áratugi. Víst er að sjúkdómurinnn hefur alltof lengi verið hulinn dul vanþekkingar og jafnvel fordóma.

Leitað lausna

Á undanförnum tveimur til þremur árum hefur vaxandi athygli beinst að ristilkrabbameini víða erlendis. Einkum hefur verið rætt um nýjar og áhrifaríkar aðferðir til að minnka nýgengi og fækka dauðsföllum af völdum sjúkdómsins. Áfram halda rannsóknir á erfðaþáttum og þróun nýrra lyfja til að fyrirbyggja og meðhöndla þetta krabbamein. En hvers vegna er árangur ekki meiri en raun ber vitni og hvað getum við gert annað? Svara við þessari spurningu hefur verið leitað meðal meltingarsérfræðinga, skurðlækna og krabbameinslækna síðastliðin ár í Evrópu og Bandaríkjunum. Margir eru sannfærðir um að nú sé réttur baráttuvettvangur fundinn, en öllum er þó ljóst að endanleg lausn á þessum illvíga sjúkdómi er ekki í sjónmáli næstu árin.

Forvörn er fyrirhyggja

Við þurfum að auka fræðslu almennings og heilbrigðisstétta, hvetja til meiri árvekni varðandi þennan sjúkdóm, m.a. um hvað hægt sé að gera til að minnka líkur á að fá þetta krabbamein og hvernig unnt er að greina það á fyrstu stigum. Um þetta snýst baráttan nú víða um heim. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur í samvinnu við ýmis fagfélög tengd meltingarsjúkdómum (OMGE, OMED, UEGF, ESGE og ASGE) og krabbameini (UICC) beitt sér á þessum vettvangi um forvarnir og skimun (skoðun) á þessu krabbameini. Við viljum vera þátttakendur í því.

Fáfræði er vandamál

Með því að auka fræðslu almennings og beita greiningaraðferðum snemma er von til að unnt verði að draga verulega úr nýgengi ristilkrabbameins og bæta horfur þeirra sem fá þennan sjúkdóm. Nýleg könnun sýnir að verulega skortir á þekkingu Íslendinga á þessu krabbameini. Einungis helmingur svarenda þekkti orsök sjúkdómsins, fjórðungur fyrstu einkenni og nýgengi og tíundi hluti svarenda vissi hver mesti áhættualdur þessa krabbameins er. Um 83% töldu að þeir hefðu enga fræðslu fengið um sjúkdóminn, tæplega 90% töldu fræðslu nauðsynlega og voru hlynnt skipulagðri leit að þessu krabbameini. Það er mjög alvarlegt til þess að vita að aðeins helmingur þeirra á aldrinum 45-75 ára, sem höfðu tekið eftir blóði í hægðum, hafði farið í ristilrannsókn.

Takmarkið skýrt

Ef vel tekst til og samstaða er góð er það raunhæft markmið að bæta verulega árvekni fólks og vitund um mikilvægi forvarna og þátttöku í skimun eftir sjúkdómnum. Markmiðið er að fækka dauðsföllum af völdum sjúkdómsins um helming á næstu 10-15 árum. Almenn fræðsla um ristilkrabbamein skiptir sköpum og getur bjargað mannslífum. Lykillinn að árangri er að einstaklingurinn hafi næga þekkingu til að geta tekið ábyrgð á sjálfum sér. Um þetta snýst Vitundarvakning um ristilkrabbamein.

Eftir Ásgeir Theodórs og Sigurð Guðmundsson

Ásgeir er meltingarsérfræðingur og Sigurður er landlæknir.

Höf.: Ásgeir Theodórs, Sigurð Guðmundsson