HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur staðfestir í öllum meginatriðum úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá því í fyrrasumar um ólögmætt samráð fyrirtækjanna Mötu, Banana og Sölufélags garðyrkjumanna en lækkar heildarsekt á fyrirtækin um tíu milljónir eða í 37 milljónir.
Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar, segir að þarna hafi verið tekist á um túlkun á grundvallaratriðum í sambandi við samráð fyrirtækja: "Miðað við það sem lögmaður okkar hefur tjáð okkur er túlkun Samkeppnisráðs staðfest. Við hljótum að vera mjög sátt við það, ekki síst vegna þess að þetta er fyrsta mál sinnar tegundar sem kemur til kasta dómstólanna."
Pálmi Haraldsson, stjórnarformaður Banana og fyrrverandi framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, segir menn auðvitað vera ánægða með að sektirnar séu lækkaðar um sem nemur um 20%. "Enn er verið að lækka sektirnar og það kemur fram í dómnum að Samkeppnisstofnun er gagnrýnd fyrir ákveðin vinnubrögð. En þetta er enginn fullnaðarsigur hjá okkur og við munum áfrýja dóminum til Hæstaréttar og leita þar eftir fullri leiðréttingu á okkar málum og réttlæti."