HÆSTIRÉTTUR staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í kærumáli Þróunarfélags miðborgarinnar gegn Markaðstorgi ehf. þess efnis að bera kærða út með beinni aðfarargerð úr húsnæði á 1. hæð tollhússins við Tryggvagötu í Reykjavík vegna þess að ekki var staðið við leigusamning. Í dómnum var m.a. stuðst við norsk lög Kristjáns V frá árinu 1687.
Þegar ekki var staðið við leigusamning var honum rift og málinu skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur. Hann féllst á kröfu gerðarbeiðanda um útburð með beinni aðfarargerð og taldi rétt að gerðarþoli greiddi gerðarbeiðanda 40.000 kr. í málskostnað.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar og kærði úrskurð Héraðsdóms. Í dómi Hæstaréttar er m.a. vitnað í norsk lög Kristjáns V frá 15. apríl 1687, þar sem m.a. kemur fram að vilji maður ekki flytjast úr leiguhúsnæði á fardegi réttum, þótt honum hafi löglega verið út byggt, eða hann hafist við í húsi, sem hann á engan rétt til eða hafi verið dæmdur úr, að ólofi eiganda, þá megi "eigandi án frekara dóms láta þjóna réttarins ryðja húsið". Í dómi Hæstaréttar segir að þessi réttur flytjist í hendur leigutaka, ef hann framleigir húsnæðið með viðhlítandi heimild frá eiganda þess. "Verður því ekki fallist á með sóknaraðila að varnaraðili sé ekki réttur aðili til að leita útburðargerðar."