"ÞAÐ sýnir að Guð hefur húmor þegar hann skapar svona dýr," segir Björn Sveinn Björnsson prestur í Útskálaprestakalli. Hann og kona hans, Súsanna Björnsson, búa á Útskálum í Garði ásamt þremur börnum sínum og kínverskum hundum og er sóknarpresturinn að vísa til hundanna með orðum sínum um skopskyn Skaparans.
Björn hefur verið prestur Garðmanna og Sandgerðinga í fjögur ár en Útskálaprestakall nær yfir þessi tvö byggðarlög og þar með tvær sögufrægar kirkjur, Hvalsneskirkju og Útskálakirkju. Er þetta fyrsta brauðið hans. "Ég kynntist þessu prestakalli þegar Önundur bróðir minn þjónaði hér í eitt ár og þá tók ég meðal annars þátt í fermingarundirbúningi. Þegar ég lauk námi heillaði þessi staður mig vegna fyrri kynna minna af honum," segir séra Björn.
Hann gerði hlé á guðfræðinámi sínu við Háskóla Íslands og fór til Bandaríkjanna árið 1991 til að kynna sér safnaðar- og boðunarstarf evangelískra safnaða. Þar kynntist hann einmitt eiginkonu sinni, Súsönnu sem er bandarísk, fædd og uppalin í stórborginni Los Angeles í Kaliforníu. Þau tóku meðal annars þátt í trúboði og hjálparstarfi í Mexíkó og víðar og segir Björn að hann hafi öðlast dýrmæta reynslu á þeim tíma.
Gott að búa á Suðurnesjum
Súsanna hefur búið á Íslandi í tíu ár og skrifar nafn sitt upp á íslensku enda er hún íslenskur ríkisborgari. Og hún talar góða íslensku. Hún segist hafa farið aðeins í nám í íslensku fyrir byrjendur þegar hún fluttist til landsins en fundist málfræðin svo erfið að hún hafi nánast gefist upp. En framfarirnar hafi komið þegar hún fór að gæta barna, frændsystkina Björns. Þar hafi hún getað talað án þess að óttast glósur vegna rangra beyginga. Þá segist hún læra mikið af því að lesa Morgunblaðið daglega."Mér finnst mjög gott að búa hér, gott að ala upp börnin í öruggu umhverfi. Þau geta farið út að leika sér án þess að maður hafi nokkrar áhyggjur. Það er rólegra hér á Suðurnesjum en í Reykjavík, ég tala nú ekki um Los Angeles," segir Súsanna. Börn þeirra eru á aldrinum tveggja til átta ára. Hún segist þó hafa nokkrar áhyggjur af þróuninni hér á landi. "Ég finn fyrir siðferðilegri hnignun sem birtist í mörgum myndum, til dæmis aukinni eiturlyfjaneyslu, klámvæðingu og glæpum. Mér þykir svo vænt um þetta land að þessi þróun veldur mér áhyggjum," segir hún.
Óvissa með uppbyggingu Útskála
Presturinn í Útskálaprestakalli á að búa í gamla sögufræga íbúðarhúsinu á Útskálum í Garði en það var úrskurðað óíbúðarhæft árið 1993. Fyrstu árin bjuggu þau í ýmsum húsum í Garði og Sandgerði og við lá að þau þyrftu að flytjast til Reykjavíkur. Þá var keypt íbúðarhús á Útskálum fyrir prestinn, Presthús heitir það, og þar líður þeim ágætlega.Fyrir nokkrum árum lét Prestsetrasjóður teikna gamla prestsbústaðinn upp og hóf vinnu við endurbyggingu hans. Þegar byrjað var að rífa innan úr húsinu komu sífellt meiri skemmdir í ljós og að lokum varð ljóst að viðgerð á húsinu myndi kosti tugi milljóna og yrði sjóðnum ofviða. Séra Björn, sóknarnefndin og Garðbúar hafa eigi að síður mikinn áhuga á að Útskálar nái fyrri reisn, enda skipar húsið mikilvægan sess í huga þeirra. Kirkjuþing hefur samþykkt að Prestsetrasjóður megi afhenda húsið til þess að það gæti nýst heimamönnum, ef einhverjir aðilar gætu fjármagnað viðgerðirnar. Björn segir að Endurbótasjóður menningarhúsa hafi samþykkt að taka þátt í verkinu og félög og stofnanir á Suðurnesjum séu að íhuga hvað hægt sé að gera. Vonast hann til að hægt verði að ljúka endurbyggingu hússins svo það gæti hýst fræða- og menningarsetur og einnig mætti nýta það í þágu safnaðarins.
Í allt of stórum fötum
"Ég sé um hundana en Björn sér um sálirnar," segir Súsanna þegar talið berst að kínversku shar-pei hundunum þeirra og leggur áherslu á að presturinn sé ekki kominn í hundana.Hún segir að móðir sín hafi verið með litla hunda og hún því alist upp við hundarækt. "Ég hef alltaf ætlað að fá mér hunda, alvöruhunda. Um leið og ég sá þetta krumpaða andlit á shar-pei vissi ég að það væri hundurinn sem ég vildi eiga," segir Súsanna.
Shar-pei hundarnir eru kínverskir að uppruna. Sérkennilegt útlit þeirra stafar af því að feldur þeirra er með fellingum á höfði, hálsi og skrokk, það er eins og þeir séu í allt of stórum fötum. Raunar fæðast hvolparnir sléttir en fyrstu vikurnar vex húðin hraðar en hvolpurinn og húðin krumpast. Eftir því sem hundurinn vex fyllir hann meira út í húðina og fellingarnar minnka. Súsanna hefur þær skýringar á húðfellingunum að þessi eiginleiki hafi verið ræktaður fram í hundakyninu í Kína. Þeir hafi verið notaðir sem vígahundar og krumpaður feldur hafi verndað skrokkinn fyrir biti andstæðinganna. Hún tekur fram að nú séu shar-pei hundarnir einstaklega rólegir og ljúfir fjölskylduhundar, barngóðir og ákaflega skemmtilegir í umgengni.
Hún flutti inn hund og tík af þessu kyni fyrr á árinu og fyrir fimm vikum gaut tíkin fjórum hvolpum. "Við erum fyrst og fremst að hugsa um að hafa hundana okkur og börnunum til ánægju enda er það gefandi og hefur góð uppeldisleg áhrif," segir séra Björn. Hann bætir því brosandi við að með þessu séu prestshjónin á Útskálum á vissan hátt að halda uppi merki fyrirrennara sinna sem voru með búskap á jörðinni.
Súsanna hyggst rækta hunda af þessu kyni og er ákveðin í að sýna þá á hundasýningu eftir áramótin. Raunar eru hún búin að festa kaup á tveimur shar-pei hundum til viðbótar, öðrum lillabláum og hinum brúnum, til að geta útvegað fólki hunda í skemmtilegum litum.