Sálfræðistöðin er að hleypa ákveðinni nýjung af stokkunum. Fyrirbyggjandi vinnusálfræði mætti kalla undirtóninn og kjarna málsins. Sálfræðingarnir Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal eru eigendur Sálfræðistöðvarinnar og svaraði Álfheiður nokkrum spurningum Morgunblaðsins um námskeiðin, tilurð þeirra og tilgang.
Er þörf fyrir námskeið um líðan fólks í vinnu og samskipti á vinnustað?
"Já, það er engin spurning. Á flestum vinnustöðum eru samskipti vandasöm og flókin og ólíkar persónur eiga samskipti. Það eru eiginleikar og viðbrögð þessara ólíku persóna sem ýmist valda því að samskiptin ganga vel, eru ánægjuleg og efla vinnugleði eða orsaka erfiðleika og vanlíðan. Það má kannski segja að þetta hafi verið að þróast hjá okkur upp úr þeirri miklu umræðu sem orðið hefur áberandi á seinni tímum um vanlíðan og jafnvel einelti í skólum og á vinnustöðum, en staðreyndin er sú að alls konar ósætti og deilur eru algeng á vinnustöðum, safnast saman og magnast ef ekkert er að gert og leiða jafnvel síðan af sér einelti. Við teljum að iðulega sé hægt að koma í veg fyrir það."
-Hvernig er hægt að koma í veg fyrir slíkt?
"Þetta er reyndar mjög stór spurning en þó eru til svör. Sálfræðistöðin hefur lengi tekið að sér handleiðslu og ráðgjöf fyrir fagfólk og stjórnendur á vinnustöðum og séð hvaða samskipti reynir gjarnan á á vinnustöðum. Einstaklingar leita einnig talsvert til okkar vegna samskipta á vinnustað. Við höfum hannað námskeið sem tekur á líðan fólks í vinnunni og köllum það Hvernig líður þér í vinnunni? Það sem við leggjum upp með er að kenna samskiptalíkan til að fólk geti betur áttað sig á hvaða viðbrögð þarf að styrkja og efla í vinnu og hver þarf að takast á við og minnka. Oft er mikilvægt að vinna með starfshópum. Vinnan er mjög persónuleg og hver og einn þátttandi er virkur. Samskiptin við aðra eru krufin og skoðuð og menn fræðast um það hvar þeir standa innan vinnustðarins. Oft áttar fólk sig ekki á hvernig orð og gerðir virka á aðra, ekki síst þegar tekið er á flóknari málum."
-Þetta er þá sum sé jákvæður boðskapur sem þið eruð með?
"Já, vissulega. Við getum talað um fyrirbyggjandi sjónarmið og þau eru mjög jákvæð. Við gætum þess líka að hafa efni námskeiðanna persónulegt og að þátttakendur séu virkir. Það er mikilvægt að fólki finnist efnið koma sér persónulega við og að hægt sé að nota aðferðirnar líka í einkalífi en svona námskeið þurfa líka að vera skemmtileg og kímigáfan á réttum stað, þá næst miklu betri árangur en ella."
-En er það ekki gjarnan þannig að fólk situr bara sem fastast og viðurkennir ekki að einhver vandamál séu uppi á borðinu?
"Það er til í dæminu í einstaka tilvikum, en okkar reynsla er sú að þegar vandamál eru þá vill fólk leysa þann vanda. Ef komist er að rót óánægjunnar er fólk bara fegið að geta talað út um það og komið því frá. Fólk vill ekki festast í vítahring á vinnustað. Það er gaman að fylgjast með þegar úrvinnsla á togstreitu virkar og komnar eru jákvæðar tilfinningar í hópinn, þá leysist heilmikil orka úr læðingi."
-Koma upp vandamál sem ekki er hægt að leysa?
"Það koma upp erfið mál, eineltismál, sambandsleysi starfsfólks, klíkumyndanir og almennur baktalsandi. Þegar svoleiðis kemur upp er tekist beint á við að leysa vandann."
-Er ekki hætta á því að menn séu fljótir að gleyma og allt leiti í sama farið?
"Það er alltaf viss hætta fyrir hendi að vandamálin skjóti aftur upp kollinum. Við erum meðvituð um það og bjóðum hópunum okkar að hitta þá aftur, t.d. á þriggja til sex mánaða fresti og fara yfir málin með þeim. Það heldur mönnum við efnið og gefur aðhald."
-Nú má fastlega reikna með að úti í þjóðfélaginu sitji einstaklingar með vinnustaðavandamál, en séu einangraðir og fyrirtæki þeirra vinni ekki hópvinnu með ykkur. Hvaða möguleika á þetta fólk?
"Við verðum með námskeið og ráðgjöf fyrir einstaklinga í vetur. Einstaklingar geta tilkynnt sig beint og mætt á eigin vegum. Eins er fullt af vinnustöðvum þar sem vandamálin eru bundin við einn eða tvo og kannski ekki nauðsynlegt að allir á vinnustaðnum þurfi ráðgjöf. Það er tvímælalaust ástæða til að senda þessu fólki þau skilaboð að það geti tekið á sínum málum og það þurfi ekki að sitja í vanlíðan á vinnustað. Alls ekki."
-Er nóg að gera í þessu hjá ykkur?
"Já, það hefur verið nóg að gera og mikið um að fyrirtæki leiti til okkar að fyrra bragði og haldi síðan góðu sambandi þar eftir. Þetta eru alls konar hópar sem við fáum og eftirspurnin hefur heldur verið að aukast."