SUÐUR spilar sex hjörtu. Í sögnum hefur hann viðrað þá hugmynd að spila alslemmu og því er heiðurinn í húfi að fara ekki niður á hálfslemmu:
Norður | |
♠Á72 | |
♥DG107 | |
♦Á965 | |
♣G2 |
Suður | |
♠K4 | |
♥ÁK986 | |
♦KD84 | |
♣Á10 |
Vestur | Norður | Austur | Suður |
- | 1 tígull | Pass | 1 hjarta |
Pass | 2 hjörtu | Pass | 4 grönd |
Pass | 5 spaðar | Pass | 5 grönd |
Pass | 6 hjörtu | Allir pass |
Fjögur grönd er spurning um lykilspil og norður kveðst eiga tvo ása og drottninguna í trompi. Með fimm gröndum er suður að leita eftir ósögðum styrk sem gæti dugað í sjö, en norður á ekkert afgangs og slær af í sex hjörtum.
Vestur spilar út spaðadrottningu. Suður tekur slaginn heima og aftrompar AV í tveimur umferðum. Hvernig á hann nú að tryggja tólf slagi?
Þetta er borðleggjandi spil ef tígulinn kemur 3-2. En ef liturinn brotnar 4-1 þarf suður að vanda sig: Hann byrjar á því að trompa út spaðann. Tekur síðan einn slag á tígul heima og spilar loks laufás og laufi:
Norður | |
♠Á72 | |
♥DG107 | |
♦Á965 | |
♣G2 |
Vestur | Austur |
♠DG10 | ♠98653 |
♥53 | ♥42 |
♦G1073 | ♦2 |
♣K984 | ♣D7653 |
Suður | |
♠K4 | |
♥ÁK986 | |
♦KD84 | |
♣Á10 |
Vörnin á ekkert svar við þessu: Ef austur tekur slaginn þarf hann að spila spaða eða laufi út í tvöfalda eyðu og þá hverfur einn tígull heima. Og ekki er betra að vestur taki á laufkóng og spili tígli, því það kostar slag að hreyfa litinn frá G107.