Recep Tayyip Erdogan, leiðtogi hins íslamska Réttlætis- og þróunarflokks, á fundi, sem hann hélt með stuðningsfólki sínu í borginni Bursa í gær.
Recep Tayyip Erdogan, leiðtogi hins íslamska Réttlætis- og þróunarflokks, á fundi, sem hann hélt með stuðningsfólki sínu í borginni Bursa í gær.
HÓFSÖMUM íslömskum flokki, sem spáð er langmestu fylgi í þingkosningunum sem fram fara í Tyrklandi á morgun, var í gær veittur gálgafrestur er stjórnlagadómstóll landsins frestaði því fram yfir kosningarnar að úrskurða hvort fallast skyldi á kröfu...

HÓFSÖMUM íslömskum flokki, sem spáð er langmestu fylgi í þingkosningunum sem fram fara í Tyrklandi á morgun, var í gær veittur gálgafrestur er stjórnlagadómstóll landsins frestaði því fram yfir kosningarnar að úrskurða hvort fallast skyldi á kröfu ríkissaksóknara um að framboð flokksins skyldi lýst ólöglegt.

Hin veraldlega þenkjandi valdastétt Tyrklands, sem forysta hersins fer fyrir, hefur miklar áhyggjur af því að íslamskur flokkur komist í lykilaðstöðu á þingi, enda hefur tilraunin til að fá framboð flokksins bannað verið túlkuð þannig bæði innan sem utan landsins að með henni sé valdastéttin að reyna að beita dómskerfinu í pólitískum tilgangi.

Flokkurinn umdeildi, sem nefnist Réttlætis- og þróunarflokkurinn og lýtur forystu vinsælasta stjórnmálamanns Tyrklands um þessar mundir, Recep Tayyip Erdogans, mun eftir ákvörðun réttarins í gær geta óhindrað tekið fullan þátt í kosningunum án þess að þurfa að óttast að kalla yfir sig einhvers konar refsingar fyrir vikið.

Saksóknarar höfðu farið fram á það að stjórnlagadómstóllinn úrskurðaði strax, fyrir kosningarnar, að Erdogan gæti lögum samkvæmt ekki gegnt formennsku í flokki sínum, þótt bið yrði á því að dómstóllinn úrskurðaði um lögmæti framboðs flokksins sem slíks.

En dómstóllinn ákvað í gær að fresta frekara réttarhaldi um lögmæti þess að Erdogan gegni flokksformannsembætti og veittu flokknum 15 daga frest til að skila inn gögnum til varnar sínum málstað.

Yfirríkissaksóknari Tyrklands vill fá framboð flokksins lýst ólöglegt á þeim forsendum að hann ákvað að halda í Erdogan sem flokksformann, þrátt fyrir að hann hafi fyrir fjórum árum hlotið dóm fyrir að "espa til trúarbragðahaturs". Vegna þessa dóms er Erdogan bannað að taka sæti á þingi og þar með einnig að eiga aðild að ríkisstjórn. Lögin kveða á um að menn sem sakfelldir hafa verið fyrir undirróður geti ekki orðið þingmenn.

Erdogan, sem er 48 ára að aldri, er fyrrverandi borgarstjóri Istanbúl, en árið 1998 var hann dæmdur í fangelsi fyrir að fara opinberlega með tilvitnun í íslamskt trúarkvæði, þar sem segir meðal annars: "Moskur eru herbúðir okkar, mínaretturnar byssustingirnir, þakhvelfingarnar hjálmar okkar og hinir trúuðu hermenn okkar."

Úlfur í sauðargæru?

Erdogan hefur í kosningabaráttunni svarið af sér róttæklingafortíð sína og segist styðja veraldlegt stjórnkerfi Tyrklands og tilraunir landsins til að fá aðild að Evrópusambandinu. En margir áhrifamenn valdastéttarinnar vantreysta hinum heillandi Erdogan; hann sé slægur bókstafstrúarmaður í gervi hófsams stjórnmálamanns, sem sæti færis að grafa undan hinu veraldlega stjórnkerfi um leið og flokkur hans kæmist til valda. "Sumir flokkar leyna sínum raunverulegu markmiðum," sagði Bulent Ecevit, núverandi forsætisráðherra, á fimmtudag. Réttlætis- og þróunarflokkurinn sé "efstur á lista í þessu sambandi".

Vinsældir flokksins má fyrst og fremst rekja til vonbrigða margra kjósenda með flokkana sem verið hafa við völd, en landið hefur gengið í gegnum gríðarlegar efnahagsþrengingar á síðustu misserum. Flokknum hefur verið spáð um 30% fylgi, sem er um 10% meira en næststærsti flokkurinn er talinn geta náð.

Ankara. AFP, AP.

Höf.: Ankara. AFP, AP