GEORGE W. Bush, forseti Bandaríkjanna, er um þessar mundir á ferðalagi um 16 ríki Bandaríkjanna til að styðja við bakið á frambjóðendum Repúblikanaflokksins í kosningunum á þriðjudag. Gera repúblikanar sér vonir um, að þá takist þeim að rjúfa pattstöðuna á þingi en þeir hafa meirihluta í fulltrúadeildinni en demókratar í öldungadeildinni.
Bush var í gær, á öðrum degi kosningaferðalagsins, í Harrisburg í Pennsylvaníu en þar er baráttan mjög tvísýn milli George W. Gekas, frambjóðanda repúblikana, og Tim Holdens, fulltrúadeildarþingmanns demókrata.
"Ég þarf á þingmönnum að halda, sem skilja hlutverk ríkisstjórnarinnar," sagði Bush á fundi í gær þar sem hann útlistaði jafnframt þá stefnu sína að lækka skatta og afskipti ríkisins. Ætlaði hann síðan á fundi í New Hampshire og Kentucky en fimm daga yfirferðinni ætlaði hann að ljúka í sínu heimaríki, Texas.
Vegna stöðunnar á þingi hefur hvorugum flokknum tekist að koma fram mörgum málum, sem hann telur brýn, og má af þeim nefna nýtt öryggisráðuneyti, sem Bush ákvað að stofna til eftir hryðjuverkin vestra fyrir ári. Hefur frumvarp um það verið samþykkt í fulltrúadeild en stöðvast í öldungadeild.
Vill fara að dæmi Clintons
Ráðandi flokkur á oft undir högg að sækja í kosningum á miðju eiginlegu kjörtímabili en Bush vonast til að snúa á þá venju að þessu sinni eins og Bill Clinton tókst 1998.Harrisburg. AFP.